Jökull ÞH 299 er væntanlegur til löndunar hjá GPG-Seafood á Húsavík í vikunni, en ný heimahöfn skipsins verður á Raufarhöfn. Skipið var smíðað í Noregi 1996, en hefur verið endurnýjað mikið á síðustu árum.
Í byrjun júní fær GPG síðan nýjan og öflugan línubát. Gunnlaugur Karl Hreinsson, stjórnarformaður GPG, segir að það sé óneitanlega spennandi að fá tvö öflug skip í flotann, ekki bara fyrir útgerðina heldur einnig fyrir byggðarlögin.
Jökull bar síðast nafnið Nanoq og var gert út af Arctic Prime Fisheries til veiða við Grænland. Að sögn Gunnlaugs hefur á síðastliðnu ári verið skipt um aðalvél og ljósavélar í skipinu og ýmislegt annað sem vélaskiptunum fylgir. Þá var skipt um kælimiðil, farið úr freon yfir í glycol, og fyrir um tveimur árum var stál í skipinu endurnýjað. Síðustu mánuði hefur verið unnið að ýmsum endurbótum á skipinu í Hafnarfirði. Í veiðiferðinni nú er öðrum þræði verið að fínstilla búnað. Frystivélar eru um borð í Jökli, en fyrst í stað að minnsta kosti verður hráefnis aflað fyrir fiskvinnslu í landi.
Áhöfnin á Herði Björnssyni ÞH 260 fór yfir á Jökul, en Herði verður lagt við bryggju næstu mánuði. Ákvörðun um framhaldið liggur ekki fyrir að sögn Gunnlaugs. Hörður Björnsson ÞH var upphaflega smíðaður í Noregi 1964.