Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði á Alþingi í dag að það þyrfti tvímælalaust að fjölga þingmönnum á Alþingi.
Ætla má að hann hafi nú verið að grínast, en þetta sagði hann samt þegar Steingrímur J. Sigfússon, forseti þingsins, mismælti sig og kynnti Björn sem 15. þingmann Reykjavíkurkjördæmis suður. Björn Leví segir við mbl.is að honum hafi nú samt verið alvara.
„Og þá tekur að síðustu til máls og ræðir störf þingsins, háttvirtur 15. þingmaður... nei, nei, nei,“ sagði Steingrímur.
„Yes!“ sagði Björn Leví þá og hló.
Eins og allir vita er Björn auðvitað 11. þingmaður kjördæmisins. Það sem Steingrímur átti við var að Björn væri 15. og síðasti þingmaðurinn sem tæki til máls um störf þingsins í dag.
Eftir að hafa mismælt sig hló Steingrímur að mistökum sínum og Björn tók undir. Björn Leví settist svo í ræðustól og sagði: „Forseti, það þarf tvímælalaust að fjölga þingmönnum.“
mbl.is sló á þráðinn til Björns sem var önnum kafinn við sérstakar umræður í þinginu. Hann gaf sér þó tíma til að útskýra mál sitt.
„Nei, ég var ekkert að grínast. Til að mynda væri hægt að fjölga þingmönnum á þá leið að taka ráðherra í ríkisstjórn úr þingmannahópnum og fjölga þannig þingmönnum í staðinn. Okkur vantar í raun og veru 10 þingmenn inn í nefndarstörfin, fólk er jafnan í tveimur nefndum og er að hlaupa fram og til baka milli nefnda til að ná að taka þátt í öllum störfum,“ segir Björn og bætir við:
„Það er ástæða fyrir því að fólk nær ekki að undirbúa sig fyrir mál.“