Norræna kom í morgun til Seyðisfjarðar með 55 farþega innanborðs. Í tilkynningu sem lögreglan á Austurlandi setti á Facebook-síðu sína rétt í þessu kemur fram að 51 farþegi hafi farið í sýnatöku, en fjórir hugðust halda áfram með skipinu og fóru því ekki í land. Tuttugu og tveir farþeganna fengu gistingu á sóttvarnarhótelinu í Hallormsstað, en aðrir ljúka sóttkví sinni annarsstaðar þar sem yfirvöld heimila.
Í tilkynningunni segir einnig að gert sé ráð fyrir að ríflega 1.100 íbúar Austurlands verði bólusettir í þessari viku, og hafi þá ríflega 4.000 manns fengið annað hvort einn eða tvo skammta af efninu, eða sem nemur um 40% íbúa.
„Skipulagning og umsjón þessa verkefnis hefur hvílt á starfsmönnum Heilbrigðisstofnunar Austurlands, HSA. Um gríðarstórt verkefni er að ræða og viðamikið. Það hefur gengið vel og þykir ástæða til að hrósa HSA fyrir þeirra þátt og ekki síður íbúum, en velvild þeirra, þolinmæði, þrautseigja og sveigjanleiki hefur átt stóran þátt í snurðulausum gangi þess,“ segir m.a. í tilkynningunni.