Frá og með næsta hausti mun Háskólinn í Reykjavík bjóða upp á undirbúningsnám fyrir háskólanám á Austurlandi í samvinnu við Háskólann á Akureyri. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu.
Kennslan mun vera með aðstöðu í námsveri Þekkingarnets Austurlands á Reyðarfirði, en sú bygging er e.t.v. betur þekkt sem „Fróðleiksmolinn“. Að sögn menntamálaráðuneytisins mun námið verða sveigjanlegt og blanda af hefðbundnu og stafrænu námi.
„Ég fagna samstarfinu og þakka fyrir þá góðu vinnu sem unnin var í stýrihópnum sem settur var á fót á grunni samningsins sem undirritaður var í haust. Það er von mín að þetta skref greiði götu íbúa Austurlands sem áhuga hafa á að hefja háskólanám, en skortir grunninn. Þetta markar ný spor í aðgengi að háskólanámi á Austurlandi,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, í tilkynningunni.
Tilgangur Háskólagrunns er að veita þeim, sem vilja hefja háskólanám en skortir tilskilinn undirbúning eða próf, leið inn í nám á háskólastigi. Háskólagrunnur Háskólans í Reykjavík er fyrsti áfanginn í uppbyggingu háskólaútibús á Austurlandi en samkvæmt menntamálaráðuneytinu er langtímamarkmið þess að efla virkt þekkingarsamfélag á Austurlandi.
Rektorar háskólanna tveggja, Ari Kristinn Jónsson og Eyjólfur Guðmundsson, fagna þessu mikilvæga skrefi til að betrumbæta aðgengi að háskólanámi og efla tengsl við atvinnulífið á Austurlandi. Þeir segja að skólarnir bjóði upp á fjölbreytt nám sem geti stutt við þróun þekkingarsamfélags og atvinnulíf í landshlutanum.