Smit utan sóttkvíar tengjast hópsýkingum

Þórólfur segir að hjarðónæmi hafi ekki verið náð með þeirri …
Þórólfur segir að hjarðónæmi hafi ekki verið náð með þeirri bólusetningu gegn veirunni sem hefur þegar farið fram. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sóttvarnalæknir gerir sér góðar vonir um að mögulegt verði að fara í afléttingar á sóttvarnaaðgerðum í næstu viku. Bæði smitin sem hafa komið upp utan sóttkvíar í þessari viku tengjast fyrri hópsýkingum en fólkið sem smitaðist kom ekki upp í rakningu. Sóttvarnalæknir segir mjög mikilvægt að fólk gefi upp upplýsingar um alla sem það hafi hitt á dögunum áður en smit greinist.

„Þetta eru einhverjar eftirhretur en vonandi er ekki mikil útbreiðsla á þessu,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is um smitin sem komu upp utan sóttkvíar.  

Hvers vegna komu smitin ekki upp í rakningu?

„Það er alltaf háð því hvað fólk segir okkur, hvað það man, og svo fram vegis. Svo þegar einhver einn greinist utan sóttkvíar og farið er að spyrja nánar út í það er oft hægt að rekja smitin utan sóttkvíar saman við eldri smit,“ segir Þórólfur.

Fannst ekki tímabært að slaka á

Í gær tilkynnti heilbrigðisráðherra að núverandi sóttvarnaaðgerðir, sem fela m.a. í sér 20 manna samkomutakmörk, takmörk á opnunartíma veitingastaða o.fl., yrðu framlengdar um viku. Þær falla því úr gildi á fimmtudag í næstu viku, 13. maí. Spurður hvort útlit sé fyrir afléttingar þá, ef þróunin verður áfram góð segir Þórólfur:

„Ég geri mér alla vega góðar vonir um það. Ég held að við þurfum bara að sjá hvernig þetta þróast. Við erum bara rétt að komast út úr þessu hópsmiti núna svo mér fannst svolítið fljótt að slaka strax á. Ef þetta gengur vel áfram finnst mér allar forsendur vera til þess að við getum farið að slaka á.“

Samfélagslegt ónæmi ekki tryggt

Nú er útlit fyrir að um 45% þeirra sem á að bólusetja hafi fengið fyrsta skammt í lok vikunnar. Er hættan á útbreiðslu smita þá ekki farin að minnka verulega?

„Hún minnkar en við erum ekki búin að fá þetta samfélagslega ónæmi þannig að það er mjög stór hópur sem er enn næmur fyrir veirunni og getur þannig smitast,“ segir Þórólfur og bætir við:

„Það sem við eigum við með hjarðónæmi er að ná því ónæmi upp í samfélaginu að við komum í veg fyrir stóra faraldra. Það geta eftir sem áður komið upp litlar hópsýkingar. Við erum ekki komin á þann stað með þessari þátttöku.“

115.447 einstaklingar hafa fengið í það minnsta einn skammt af bóluefni gegn Covid-19.

„Það er ekki nóg til þess að búa til hjarðónæmi í samfélaginu en auðvitað minnkar það líkurnar og við erum búin að vernda ágætlega viðkvæmasta hópinn en á móti kemur að þetta afbrigði herjar á yngra fólk svo við gætum lent illa í því ef við fáum stóra hópsýkingu hjá yngra fólki,“ segir Þórólfur.

Hvaða prósentu er miðað við þegar rætt er um hjarónæmi?

„Það veit það enginn nákvæmlega en það er oft talað um svona 60-70%.“

Sem stendur er einungis fólki sem er fætt árið 2005 eða fyrr boðin bólusetning gegn Covid-19. Pfizer/BioNTech hefur rannsakað efnið á meðal barna sem eru 12-15 ára og er málið nú í flýtimeðferð hjá Lyfjastofnun Evrópu. Þórólfur segir að ákvörðun verði tekin um það hvort börn verði bólusett þegar rannsóknum er lokið.

Er ekki hætt við að smit geti áfram grasserað á meðal barna og unglinga ef við ákveðum að bólusetja þau ekki?

 „Það er alveg mögulegt þó börn séu ekki að veikjast eins alvarlega og eldra fólk þá höfum við séð það. Smit er fátíðara frá börnum til annarra sem er dálítið óvenjulegt en það getur gerst eftir sem áður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert