Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar samþykkti í gær tillögu Vegagerðarinnar um að lækka hámarkshraða á kafla Bústaðarvegar. Er þetta gert út frá öryggissjónarmiði, til að sami hámarkshraði verði í báðar áttir á sama stað og vegna fyrirhugaðrar breytingar á brúnni yfir Kringlumýrarbraut.
Umsjón með Bústaðavegi skiptast á milli Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar. Borgin sér um hlutann frá Kringlumýrarbraut og austur að Reykjanesbraut, þ.e. eftir Fossvogsdalnum. Vegagerðin sér hins vegar um hlutann sem nær frá brúnni yfir Kringlumýrarbraut og vestur að gatnamótum Hringbrautar.
Á þeim kafla sem borgin hefur umsjón með er hámarkshraðinn 50 km/klst. Á vestari hlutanum hefur hins vegar verið 50 km/klst hámarkshraði þegar keyrt er í austurátt, en 60 km/klst þegar keyrt er í vesturátt. Með breytingunum núna verður hins vegar kaflinn frá Kringlumýrarbraut og fram yfir Kapellutorg og Veðurstofuna settur í 50 flokkinn. Enn þá verður hámarkshraðinn eftir Veðurstofuna í vesturátt með 60 km/klst hámarkshraða.
Í rökstuðningi Vegagerðarinnar fyrir þessum breytingum kemur fram að eðlilegt sé að hafa sama hraða í báðar áttir á þessum kafla. Þá minni lækkun hámarkshraða umferðarhávaða, en þessi hluti vegarins sé nálægt íbúðarhúsum.
Þá er líka greint frá því að fyrirhugaðar séu framkvæmdir þar sem þversniði brúarinnar verði breytt. Stefnt er að því að þrengja akreinar og miðeyjur til að stækka svæði fyrir gangandi og hjólandi yfir brúna. Miðast nýjar breiddir akreinanna við 50 km/klst hámarkshraða.
Á norðvestur rampi brúarinnar, þar sem nú er 60 km/klst hámarkshraði, er einnig gönguþverun og telur Vegagerðin út frá öryggisráðstöfunum að nauðsynlegt sé að lækka hámarkshraða þar.
Tillagan var samþykkt samhljóða í umhverfis- og skipulagsráði