Bólusetning hættuminni en að veikjast

Um 15 þúsund einstaklingar verða bólusettir í dag.
Um 15 þúsund einstaklingar verða bólusettir í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er gríðarlega sjaldgæf aukaverkun,“ sagði Björn Rúnar Lúðvíksson, yfirlæknir ónæmisfræðideildar Landspítalans og prófessor í ónæmisfræði, um óvenjulega blóðtappa í heila sem tengdir hafa verið við bóluefni AstraZeneca.

„Þetta er mjög flókið mál og margþætt,“ bætti Björn Rúnar við. Hann sagði að því miður beri tölum um tíðni alvarlegra aukaverkana ekki alveg saman frá hinum ýmsu löndum. „Svo virðist sem alvarleg tilfelli aukaverkana sem tengjast AstraZeneca hafi verið hlutfallslega flest í Noregi og Danmörku. Nýlega var birt samantekt frá Hollandi og Austurríki. Þar var lýst blóðtöppum í um 15 tilfellum á hverja milljón bólusettra.“

Meiri hætta af sjúkdómnum

Tilvik blóðtappa í heila á meðal bólusettra með AstraZeneca eru fá. Þau hafa verið frá einu tilviki af hverjum 70-80 þúsund bólusettra upp í einn af hverjum 200-230 þúsund bólusettra. Björn sagði að þetta væri gríðarlega lág tíðni. Til samanburðar nefndi hann að á meðal kvenna sem nota getnaðarvarnarpilluna fái 3-7 konur af hverjum 10.000 blóðtappa. Mjög lítill hluti þeirra fær þá alvarlegu blóðtappa í höfði sem tengdir hafa verið við AstraZeneca-bóluefnið.

„Við megum ekki gleyma því að þeir sem fá Covid-19-sjúkdóminn eru í verulega mikið meiri hættu á að fá blóðtappa en þeir sem fá bólusetningu með AstraZeneca. Blóðtappar sem fylgja sjúkdómnum geta myndast víða í líkamanum, ekki bara í höfðinu heldur líka í lungum, kálfa eða hjarta. Tíðnin á því getur verið frá 5-30% af þeim sem sýkjast,“ sagði Björn Rúnar. Tíðnin er líklega hæst hjá þeim eldri, fólki með undirliggjandi áhættuþætti og hjá þeim sem fá alvarlegustu sýkingarnar. Blóðtappamyndun er fátíðari hjá þeim yngri og þeim sem fá lítil einkenni eftir Covid-19-sýkingu.

Hættan á alvarlegum aukaverkunum eftir bólusetningu með AstraZeneca er mest hjá 20-40 ára konum en mjög óveruleg hjá konum 60 ára og eldri. „Ekki má gleyma því að þetta eru gríðarlega sjaldgæfar aukaverkanir,“ sagði Björn Rúnar.

Hann kvaðst vera algjörlega sammála nálgun sóttvarnalæknis og taldi hana mjög skynsamlega. Konum sem fæddar eru 1962-1966, sem ekki hafa áhættuþætti sem auka hættu á segamyndun, er boðin bólusetning með AstraZeneca. Yngri konum verða boðin önnur bóluefni.

Tvær sprautur eða ein

Þeir sem eru bólusettir með AstraZeneca, Moderna eða Pfizer fá tvær sprautur á meðan ein sprauta af Janssen dugar. Hvers vegna?

„Janssen er af sama flokki og AstraZeneca en aðeins öðruvísi uppbyggt. Þeir hjá Johnson & Johnson, sem framleiða Janssen, hönnuðu sínar meðferðarrannsóknir frá byrjun út frá því að það þyrfti bara eina bólusetningu. Við vitum núna að vörnin eftir eina sprautu af hinum þremur bóluefnunum er mjög góð. Í sumum tilvikum ertu kominn með 75-85% vörn gegn þessum alvarlega sjúkdómi eftir aðeins eina bólusetningu,“ sagði Björn Rúnar.

Komnar eru frumniðurstöður úr prófunum með bólusetningar hjá 12-16 ára börnum. Þær skiluðu mjög góðum árangri með litlum sem engum hliðarverkunum. Því aukast líkurnar á því að hægt verði að bólusetja börn fyrr en seinna.

Nýlega birtust einnig mjög góðar niðurstöður varðandi konur sem voru barnshafandi, en vissu ekki af því, og voru bólusettar. Þeim farnaðist mjög vel og virtist ekki vera aukin hætta á því að bólusetningin hefði slæm áhrif á fóstrið eða meðgönguna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert