Rafíþróttamótið Mid-Season Invitational í League of Legends er haldið á Íslandi í ár og hafa 400 manns mætt til landsins til þess að keppa á mótinu, sem hófst í dag, eða koma að framkvæmd þess.
„Þetta er svona 50/50,“ segir Ólafur Hrafn Steinarsson, formaður Rafíþróttasamtaka Íslands um skiptingu hópsins eftir þátttöku. „Þetta eru ellefu atvinnumannalið sem eru að koma hérna í kringum þetta mót og svo kemur annað mót sem tekur við beint eftir þetta og þar koma tíu lið. Þannig að þetta verða samtals 21 lið sem koma hérna núna og það má búast við tíu til fimmtán manna hóp í kringum hvert lið.“
„Restin er síðan starfsfólk Riot Games og er þá blanda af bæði viðburðarfyrirtækjum sem að Riot vinna með sem og stjórnendum og starfsfólki hjá Riot, tæknifólki og útsendingafólki sem kemur hvaðan að úr heiminum.“
Ólafur lýsir mótinu sem stærsta viðburði sem hefur farið í á Íslandi. „Ég heyrði einstaklinga hafa orði á því í gær ef að við ætluðum að halda þessa útsendingu sem Ísland þá þyrftum við að loka bæði RÚV og Stöð 2 og nota allan búnaðinn þar og það á ennþá eftir að kaupa slatta af búnaði til þess að geta staðið á bak við svona útsendingu. Mikið af búnaðinum og öðru þurfti að vera fluttur inn til þess að geta staðið við þessa útsendingu en u.þ.b. 40 prósent af heildarfjármunum viðburðarins fer í að kaupa innlenda þjónustu og annað.“
Áhorfið á mótinu verður að mati Ólafs að mestu leiti í Asíu og þá sérstaklega í Kína. „Það má búast við því að áttatíu prósent af áhorfinu sé þaðan. Þar er þetta í rauninni af stærðargráðu sem við eigum erfitt með að átta okkur á en það má búast við að tugi milljóna einstaklinga sem að eru að fylgjast með útsendingunni eins og hún er í gangi á hverri sekúndu. Svo þegar við förum í útsláttarkeppnina eftir riðlakeppnina þá má búast við jafnvel yfir hundruð milljónir einstaklinga á hverjum tíma.“
Til samanburðar nefnir Ólafur að uppsafnað áhorf á Eurovision sé u.þ.b. 180 milljón manns og að áhorfið á Ofurskálina í Bandaríkjunum sé um 110 milljón manns. „Þetta er í rauninni, gagnvart sérstaklega þá Asíu, stærsta landkynning sem að við höfum fengið inn hérna á Íslandi og það má í rauninni bera það saman við að halda suma af stærstu viðburðum í heiminum.
Keppnisrétt á mótið fá þau lið sem unnu sína deild á nýliðnu vortímabili, en tólf slíkar deildir eru um allan heim. Stærstu deildirnar eru í Suður-Kóreu, Kína og Evrópu, en smærri ríki og landssvæði eins og Japan og Eyjaálfa eru einnig með sínar eigin deildir. Fulltrúar víetnömsku deildarinnar GAM Esports þurftu að draga sig úr keppni vegna sóttvarnaaðgerða stjórnvalda þar í landi.
Keppnisliðunum ellefu er skipt niður í þrjá riðla þar sem liðin mæta hvort öðru tvisvar. Síðan fara efstu tvö liðin úr hverjum riðli inn í milliriðil og efstu fjögur liðin úr þeim milliriðli mæta síðan hvort öðru í undanúrslitum. Hægt er að líkja skipulagi mótsins við heimsmeistaramótið í handbolta, til þess að grípa myndlíkingu úr heimi hefðbundinna íþrótta.
„Þetta er sem sagt ekki bara einn leikur, þetta er heilt mót. Þetta eru fjórtán útsendingardagar sem verið að fara að framleiða bara í kringum þetta mót og aðrir tíu útsendingardagar sem verða framleiddir í kringum hitt mótið hérna úr Laugardalnum.“
Samkvæmt Ólafi er mótið sem var að hefjast næststærsti viðburðurinn í rafíþróttaheiminum. „Eini viðburðurinn í rafíþróttaheiminum sem er stærri heldur en Mid-Season Invitational er heimsmeistaramótið í League of Legends“.
„Það má alveg segja að mikilvægi þessarar viðburðar og það að staðsetning hans sé á Íslandi og það að við komum rosalega vel út úr þessu sem þjóð í að taka á móti svona viðburðum getur haft gífurlega þýðingu fyrir okkur,“ segir Ólafur um viðburðinn.“Þetta getur jafnvel búið til mjög stór tækifæri til gjaldeyristekna og góðra áhrifa á hagkerfið okkar í heild ef að þetta er eitthvað sem við getum laðað til landsins í meira mæli.“
„Ef við hugsum áhorfendahópinn í Kína sem er að fylgjast með þessu og segjum að hundrað miljón nýir Kínverjar læri um Ísland sem áfangastað og tíu prósent af þeim setji Ísland á óskalistann sinn og tíu prósent skila sér til landsins sem ferðamenn á næstu fimm árum, þá er það samt miljón manns. Það er þá ótalið allt fólkið víðs vegar annars staðar sem er að fylgjast með þessu.“
Þegar hann leitar að atburði til þess að líkja mótinu við þá segir hann þetta minni hann helst á eldgosið. „Í rauninni erum við ótrúlega heppin sem þjóð að vera fá svona marga fína hluti. Ég tók eftir því upp á síðkastið að ef þú skoðar hvað er verið að tala um annað hvort Ísland eða Reykjavík á Twitter, þá er meira talað um það í samhengi við þessi rafíþróttamót sem eru í gangi heldur en í kringum íslenska náttúru eða eldgosið.“