Fer allt að fjögur hundruð metra upp fyrir gíginn

„Þessi var mjög myndarlegur, ég þori ekki að fara með það hvort þetta hafi verið sá stærsti, en hann var klárlega með þeim stærri.“

Þetta segir Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur og prófessor við HÍ, um kvikustrókinn sem steig upp úr gígnum við Geldingadali í gærmorgun.

Vefmyndavél mbl.is festi strókinn á myndskeið og má sjá það hér að ofan.

Eins og mbl.is greindi frá í gær varð smá­vægi­legr­ar breyt­ing­ar vart á óróa­mæl­ing­um við Fagra­dals­fjall skömmu fyr­ir klukk­an 4.40 í gærmorg­un. Um leið fór að líða lengri tími á milli kvikustrók­anna í meg­in­gígn­um.

Fram að því höfðu um tíu mín­út­ur jafn­an liðið á milli kvikustróka en eft­ir breyt­ing­una leið upp und­ir hálf­tími á milli. Eft­ir slíkt hlé, klukk­an 5.40 ár­deg­is, kom óvenju hár kvikustrók­ur upp úr gígnum.

Ekki allt sem sýnist

Bent var á í gær að svo virtist sem strókurinn hefði náð yfir 460 metra hæð yfir sjávarmáli, eða um 200 metra upp frá hæsta gígbarminum og þar með töluvert lengra frá botni gígsins.

Ármann bendir á að ekki sé þó allt sem sýnist, þegar meta eigi stærð kvikustróka.

„Ef maður metur þetta þá er það annars vegar þetta rauða sem þú horfir á, sem dregur alltaf athyglina. En hins vegar er það náttúrlega hellingur af ösku sem er skotið lengra upp. Ef þú ert því að mæla rauðuna í einhverri hæð, þá er gosmökkurinn miklu hærri.“

Allra mesti toppur stróksins sé ekki rauður.

„Hann ber miklu kaldari öskuagnir með sér. Þetta er því gosstrókur sem nær þrjú, fjögur hundruð metra upp fyrir gíginn.“

Þessa sömu nótt varð vart við heljarinnar eldhvirfil í hraunánni sem rennur frá gígnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert