Fleiri börn í bráðainnlögn á BUGL

Barna- og unglingageðdeild (BUGL).
Barna- og unglingageðdeild (BUGL).

Sterkar vísbendingar eru um að geðheilsu barna og unglinga á Íslandi hraki, með vaxandi einkennum kvíða og þunglyndis. Mikið hefur verið um bráðainnlagnir á barna- og unglingageðdeild Landspítalans, BUGL, í vetur.

Bertrand Andre Marc Lauth, geðlæknir á barna- og unglingageðdeild Landspítala, segir í viðtali við Læknablaðið að þetta sé ekki tilviljun og rekur vandann langt aftur fyrir veirufaldaraldurinn sem hefur geisað. Við séum núna að glíma við langtímaafleiðingar efnahagshrunsins 2008.

Yfirvöld hafi látið þetta gerast þvert á þekkingu, til dæmis frá Finnlandi. Sparnaður í skólakerfinu hafi komið illa niður á geðheilsu barna og unglinga.  

„Við læknar finnum þetta í starfi okkar. Það hefur komið skellur síðustu ár því með niðurskurði sem þessum aukum við geðrænan vanda ungmenna nokkrum árum seinna,“ segir hann í viðtalinu. „Finnar vöruðu við að spara í skólakerfinu. En það var gert hér og hefur haft afleiðingar þrátt fyrir velvilja og mikla fyrirhöfn kennara og skólastjórnanda.“

Vill aukna umræðu um byssueign 

Bertrand vitnar einnig í tölur svissnesku stofnunarinnar Small Arms Survey fyrir árið 2017 þar sem fram kemur að um 70 þúsund byssur séu skráðar á Íslandi. Hjón megi eiga sex byssur heima án þess að þurfa að eiga sérútbúinn vopnaskáp samþykktan af lögreglu. Hann segir að vopn séu einn áhættuþátta þegar kemur að sjálfsvígum og slysaskotum barna og unglinga.

„Ég hef hitt unglinga sem hafa verið með virkar sjálfsvígshugsanir og viljað ná í vopn. Það er stórhættulegt komist þau í vopn og ég hef því reynt að vara fólk við þessu. En svo heyrist af slysum, og það eitt nýlega, af börnum eða unglingum sem fikta í vopnum og deyja. Stundum fyrir slysni og stundum ekki,“ segir hann í viðtalinu og vill að þessi mál verði rædd betur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert