„Við vorum öll saman í röð, fengum sama bóluefni á sama tíma og sama stað og okkar skjólstæðingar. Mér fannst það frábært og ég held að það hafi skipt máli,“ segir Birna Sigurðardóttir, starfsmaður VoR-teymisins, sem var á vettvangi þegar gestir neyðarskýla voru bólusettir í gær. Þetta kemur fram á vef Reykjavíkurborgar í gær.
Birna og Jónína Sigurðardóttir, samstarfskona hennar í teyminu, keyrðu um bæinn í gær til að hafa uppi á sínu fólki og fara með þau sem vildu þiggja bólusetningu á staðinn. Báðar fengu þær líka bólusetningu í dag með Janssen-bóluefninu.
„Okkar skjólstæðingar eru vanir því að vera undir í kerfinu almennt. Sumir þeirra voru skeptískir og aðrir hræddir um að fá ekki jafngott bóluefni og aðrir. Þess vegna var þetta sterkt, að við yrðum öll samferða í þessu. Þetta var líka besta leiðin til að ná til þeirra, að koma með bólusetninguna til þeirra. Mörg þeirra eru ekki með síma, rafræn skilríki eða fasta búsetu, svo þetta var mikilvægt.“
Þær eru sammála um að það breyti miklu fyrir störf VoR-teymisins og skjólstæðinga þess að vera orðin bólusett. „Þetta hefur verið erfiður tími í okkar starfi. Maður hefur ekki getað nýtt sér jafn mikinn stuðning frá fjölskyldu og vinum og maður er vanur, svo ég tali nú ekki um frá teyminu sjálfu. Við höfum ekki getað umgengist hvert annað eins og við erum vön. Það er mikilvægt fyrir okkur að geta nýtt stuðninginn hvert frá öðru,“ segir Jónína.
Ákveðið var, í góðu samráði við Heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu og almannavarnir, að bólusetja fólkið á sínum heimavelli. Bólusetningarhópurinn fór því í Gistiskýlið, í neyðarathvarf fyrir konur og í Skjólið sem er dagsetur fyrir konur. Í heild bólusetti hópurinn 75 einstaklinga, notendur þjónustunnar og starfsfólk, með bóluefninu Janssen.
Á velferðarsviði starfa hátt í 3.000 manns og stór hluti þeirra, eða um 1.900 manns, kemur að beinni þjónustu við notendur. Í næstu viku rennur því upp langþráð stund, þegar sá hópur fær boð í bólusetningu, gangi allar áætlanir eftir.