Það hefur verið mjög athyglisvert að fylgjast með þessu mikla risi hlaðvarpanna síðustu tvö til þrjú ár. Það virðist sem allir og amma þeirra séu með hlaðvarp í dag,“ segir Arnar Eggert Thoroddsen, aðjúnkt í félagsfræði við Háskóla Íslands og umsjónarmaður grunnnáms í fjölmiðlafræði.
Vinsældir hlaðvarpa hafa aukist hratt síðustu misseri, ekki síst eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á. Framboð efnis virðist endalaust og efnistök eru ótrúlega fjölbreytt. Ein tegund sem notið hefur talsverðra vinsælda eru löng og ítarleg viðtöl við fólk, bæði þjóðþekkt fólk en líka fólk sem er vel kynnt innan ákveðins geira en aðrir þekkja minna til. Áður fyrr voru slík viðtöl helst aðeins tekin í Ríkisútvarpinu og voru þau gjarnan afar formleg. Segja má að margir hlaðvarparar hafi tekið gamla Maður er nefndur-formið og poppað það upp. Stóri munurinn er þó sá að efnið í dag er öllum aðgengilegt meðan grafa þarf ofan í hirslur og kima í kjöllurum í Efstaleiti til að nálgast eldra efni RÚV.
Arnar Eggert segir að þetta sé áhugaverður kimi í hlaðvarpsheiminum. „Sölvi Tryggva keyrir á viðtölum við frægt fólk. Snæbjörn Ragnarsson, Bibbi, tekur svo fjögurra tíma viðtal við manneskju sem er ekkert endilega mjög þekkt. Þetta er auðvitað geggjuð efnisframleiðsla út um allt og af öllum toga. Viðtal Bibba við Sölku Sól er þá bara einum smelli frá fólki og manni finnst stundum eins og þessir sjálfstæðu hlaðvarpsbændur séu lunknari við aðgengilegheitin en báknin sem eiga það til að vera svifasein. Það er gömul saga og ný.“
Arnar segir að nemendur sínir í HÍ sýni hlaðvörpum mikinn áhuga. „Ég hef verið að kenna námskeið sem ég kalla Samfélags- og nýmiðlar. Þar tókum við til dæmis einn tíma í að tala um hlaðvörp. Mér fannst áhugavert að heyra að margir settu það ekkert fyrir sig að hlusta á löng viðtöl en þeir viðurkenndu reyndar að þeir hlustuðu ekkert endilega af athygli allan tímann. Þeim finnst kannski bara þægilegt að hafa þetta í bakgrunni. Og þar komum við náttúrulega að því að hlaðvörp eru bara útvarp, gamalt fyrirbæri í nýjum búningi. Þessir viðtalsþættir eru bara Kvöldstund með listamanni eða Kvöldgestir Jónasar. Valdið er komið frá stofnunum til fólksins, Bibbi er kominn með stöðu og dagskrárvald. Við höfum einmitt rætt það í þessum kúrs sem ég kenni hvernig internetið hefur, í gegnum samfélagsmiðla, gefið Jóa á bolnum stökkpall. Tæknin er alltaf að verða einfaldari, hún er eiginlega fólheld. Ég og þú gætum sett hlaðvarp í loftið fyrir lok dagsins. Hin svokallaða þátttökumenning er orðin áberandi og er það mestmegnis til bóta finnst mér.“
Hann segir að sú þróun að allir geti framleitt hlaðvörp sé mikilvæg. „Þetta er svipað og Bandcamp og Spotify hafa gert fyrir tónlistina og Youtube fyrir myndbandageirann, það er búið að klippa út milliliðinn. Ef ég og þú ætluðum að gera þetta hlaðvarp þyrftum við ekki að koma skríðandi inn á skrifstofu einhvers framkvæmdastjóra, við myndum bara setja það inn sjálfir. Og það getur verið tveggja tíma þáttur um eitt lag eða 100 þættir um frímerkjasöfnun.“
Það er ekkert ljós án skugga og Arnar Eggert segir að það eigi einnig við um hlaðvarpsheiminn. „Dekkri myndin er auðvitað sú að það er svo mikil efnisframleiðsla að þetta verður bara „white noise“, það er enginn að hlusta. Það er líka gamla sagan um vinsældir, eitthvað eitt eða tvennt á það til að tróna algerlega yfir öðru og útkoman því sú að annaðhvort eru allir að hlusta eða því sem næst enginn.“
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. maí.