Íslenskir ríkisborgarar flytja heim

Skilyrði til búferlaflutninga voru erfið í faraldrinum.
Skilyrði til búferlaflutninga voru erfið í faraldrinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríflega 500 fleiri íslenskir ríkisborgarar fluttu til landsins í fyrra en fluttu þá frá landinu. Það er mesti fjöldi aðfluttra íslenskra ríkisborgara umfram brottflutta á þessari öld.

Sama þróun var á fyrsta fjórðungi í ár en þá fluttu 180 fleiri íslenskir ríkisborgarar til landsins en frá því.

Kórónuveirufaraldurinn einkennir þetta tímabil en tölurnar benda til að margir íslenskir ríkisborgarar hafi ákveðið að flytja heim. Hvort sú búseta verði varanleg á svo eftir að koma í ljós þegar faraldrinum lýkur og flugsamgöngur og búferlaflutningar komast sem víðast í fyrra horf.

Hvað snertir erlenda ríkisborgara fluttu ríflega 1.700 fleiri þeirra til landsins í fyrra en frá því. Hefur sú tala ekki verið svo lág síðan 2013 en ætla verður að miklar hömlur á flugi og frost í ferðaþjónustu, sem hefur reitt sig mikið á erlent vinnuafl, hafi haft mikið um þetta að segja.

Ekki margir flutt frá landinu

Á hinn bóginn virðist faraldurinn ekki hafa leitt til mikils brottflutnings erlendra ríkisborgara, líkt og raunin varð með efnahagshruninu haustið 2008. Árin 2009-2011 fluttu fleiri erlendir ríkisborgarar frá landinu en til þess. Var það mikill viðsnúningur frá þensluárunum fyrir hrunið þegar erlent vinnuafl streymdi til landsins, ekki síst til starfa í byggingariðnaði.

Vegna þessara strauma í búferlaflutningum heldur samsetning þjóðarinnar áfram að breytast.

graf/mbl.is

Frá aldamótum hafa rúmlega 51 þúsund fleiri erlendir ríkisborgarar flutt til landsins en frá því og þar af tæplega 33 þúsund frá 2012.

Með sama áframhaldi mun hlutfall fólks af erlendum uppruna því aukast ár frá ári. Hversu hratt gæti meðal annars ráðist af mannaflsþörf í íslenskri ferðaþjónustu næstu ár.

Í fyrsta sinn á öldinni

Annað sem athygli vekur er að það hefur nú gerst í fyrsta sinn á öldinni að fleiri íslenskir ríkisborgarar eru að flytja til landsins en frá því tvö ár í röð. Þ.e.a.s. frá ársbyrjun 2020 og til loka fyrsta fjórðungs í ár.

Með þeirri þróun hefur flutningsjöfnuðurinn á öldinni lítillega breyst og hafa nú ríflega 11.100 fleiri íslenskir ríkisborgarar flutt frá landinu en til þess frá ársbyrjun 2000.

Sú tala var öllu hærri í ársbyrjun 2020 en hefur síðan lækkað með auknum aðflutningi íslenskra ríkisborgara til landsins.

Búferlaflutningar á öldinni hafa ýtt undir hraða íbúafjölgun á tímabili mikilla sviptinga í efnahagsmálum. Netbólan sprakk 2001, þá bankabólan 2008 og svo hófst samdráttur í ferðaþjónustu árið 2018 með því að WOW air fór að lækka flugið. Síðan lamaði faraldurinn flugsamgöngur um heim allan.

Reynslan á öldinni bendir til að góð staða efnahagsmála leiði til aukins aðflutnings erlendra ríkisborgara en að kreppur hafi minni áhrif í hina áttina.

Árið 2000 bjuggu ríflega 279 þúsund manns á landinu og í ársbyrjun 2008 ríflega 315 þúsund en eins og grafið hér fyrir ofan sýnir jókst svo aðflutningur til landsins.

Í ársbyrjun 2015 bjuggu hér ríflega 329 þúsund manns en ríflega 364 þúsund manns í byrjun árs 2020 og fjölgaði íbúum þá um 35 þúsund.

Íbúafjölgunin hélt áfram í fyrra og í byrjun þessa árs bjuggu um 369 þúsund manns á landinu, eða 90 þúsund fleiri en árið 2000.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert