Leikskóli verði á Hagatorgi

Á Hagatorgi er nú að finna listaverkið Íslandsmerki eftir Sigurjón …
Á Hagatorgi er nú að finna listaverkið Íslandsmerki eftir Sigurjón Ólafsson myndhöggvara, annað ekki. Í baksýn má sjá Neskirkju og Melaskóla. mbl.is/RAX

Kynnt hefur verið í borgarkerfinu greinargerð starfshópsins „Brúum bilið á meðan við brúum bilið“ þar sem lagðar eru til mögulegar staðsetningar fyrir nýtt leikskólahúsnæði á fimm stöðum í Reykjavík: Vogabyggð 5, Nauthólsvegi 81, Barónsstíg 34, Eggertsgötu 35 og Hagatorgi.

Síðasta staðsetningin er athyglisverð, en á torginu, gegnt Hótel Sögu, er nú aðeins að finna listaverkið Íslandsmerki eftir Sigurjón Ólafsson, annað ekki.

Um verður að ræða færanlegar einingar sem verða víkjandi fyrir annarri starfsemi/framtíðaruppbyggingu á lóðunum sem um ræðir. Mögulegur fjöldi leikskólaplássa verður um það bil 60-100 á hverjum stað. Vandað skal til útlits húsnæðisins og verður yfirborð lóðar útfært sem aðlaðandi útisvæði fyrir börn.

Á Barónsstíg 34 (Vörðuskóli) er lagt til að koma fyrir u.þ.b. 600 m² einingahúsnæði á lóðinni sem nýta á sem leikskóla fyrir u.þ.b. 60 börn. Ekki er ætlunin að leikskólinn verði á lóðinni til frambúðar heldur myndi hann víkja þegar kemur að því að byggja við Vörðuskóla (eða fyrr). Í dag er bílastæði á byggingarreitnum sem um ræðir.

Útivistarsvæði Öskjuhlíðar nýtt

Á Nauthólsvegi 81 (skólalóð) er lagt til að koma fyrir u.þ.b. 900 m² einingahúsnæði sem nýta á sem leikskóla fyrir u.þ.b. 100 börn. Fyrirhugaður grunnskóli á lóðinni verður ekki byggður næstu misserin. Við frágang lóðar skal leitast við að halda í náttúrulegan gróður og tengt verði eins og kostur er sjónrænt við ásýnd og umhverfi útivistarsvæðis Öskjuhlíðar. Gert er ráð fyrir að útivistarsvæði Öskjuhlíðar nýtist skólabörnum ásamt skólalóð.

Í Vogabyggð 5 (skólalóð) er lagt til að koma fyrir u.þ.b. 900 m² einingahúsnæði sem nýta á sem leikskóla fyrir u.þ.b. 100 börn. Vogabyggð 5 á í framtíðinni að þjóna sem skóla-, frístunda og útivistarsvæði. Í deiliskipulagi er heimild fyrir allt að 5.000 m² grunn- og leikskólabyggingu á tveimur til þremur hæðum á lóðinni. Ekki stendur til að hefja framkvæmdir við skólann næstu misserin.

Á Eggertsgötu 35 er lagt til að koma fyrir u.þ.b. 900 m² einingahúsnæði á lóðinni sem nýta á sem leikskóla fyrir u.þ.b. 100 börn. Á lóðinni verður í framtíðinni reist allt að 8.575 m² bygging, sem nýtast á háskólasamfélaginu.

Loks er lagt til að stofna nýja lóð á Hagatorgi og reisa á henni u.þ.b. 600 m² einingahúsnæði sem nýta á sem leikskóla fyrir u.þ.b. 60 börn. Ekkert deiliskipulag er í gildi fyrir Hagatorg. Til að byggja húsnæði á svæðinu þyrfti því að sækja um stofnun nýrrar lóðar og sækja síðan um byggingarleyfi sem yrði grenndarkynnt.

Tekið er fram að skoða þurfi umferð og aðkomu foreldra og leikskólabarna að torginu og leysa með viðunandi hætti. Bera skal úrlausnina undir samgöngustjóra. Enn fremur þurfi að sýna útfærslu á bílastæðum og frágangi á yfirborði torgsins.

Talsvert er um lagnir undir Hagatorgi og hafa þarf samráð við Veitur vegna kvaða þegar/ef stofnuð er ný lóð og farið í framkvæmdir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert