Tillaga minnihlutans um hraðalækkun felld

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um lækkun hámarkshraða í Álmgerði í Reykjavík var hafnað af meirihluta í skipulags- og samgönguráði í gær. Tillagan var lögð fram vegna þess að mikið er um akstur yfir hámarkshraða í götunni, sem talið er ógna öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda, ekki síst barna á skólaaldri. 

Tillaga um málið var lögð fram af fulltrúa Sjálfstæðisflokks á fundi skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar þann 24. mars síðastliðinn. Þann 7. apríl var henni svo vísað til umsagnar skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar á umhverfis- og skipulagssviði.

map.is
map.is map.is

Samgöngustjóri sammála um að ráðast þurfi í aðgerðir

Í umsögn Þorsteins R. Hermannssonar samgöngustjóra kemur fram að „samkvæmt nýjustu niðurstöðum hraðamælinga lögreglunnar í Álmgerði var meðalhraði ökutækja í götunni um 35 kílómetrar á klukkustund og brotahlutfall um 44%. Meðalhraði brotlegra var 44 kílómetrar á klukkustund og hæsti hraði 50 kílómetrar á klukkustund.“

Samgöngustjóri kveðst svo sammála um að ráðast þurfi í hraðatakmarkandi breytingar í götunni en segir jafnframt að þar sé ekki til staðar meiri hætta en annars staðar og því þurfi að forgangsraða verkefnum. 

„Við forgangsröðun aðgerða er horft til skráðra umferðarslysa, kortlagningar á gönguleiðum skólabarna, umferðartalninga, hraðamælinga lögreglu og Reykjavíkurborgar, ábendinga og faglegu mati á aðstæðum og áhættu á hverjum stað,“ segir í umsögn samgöngustjóra.

Í bókun meirihlutaflokkanna í borgarráði frá því í dag segir að tekið sé undir að æskilegt sé að ráðast í breytingar í Álmgerði til þess að auka þar umferðaröryggi. Hins vegar sé verkefnum forgangsraðað á ári hverju með það að markmiði að sem mest öryggi fáist fyrir gangandi vegfarendur, miðað við þann pening sem settur er í málaflokkinn á hverju ári. Því miður sé ekki unnt að forgangsraða þessum aðgerðum á kostnað annarra aðgerða sem á dagskrá eru. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert