Tillaga um afsökunarbeiðni bæjarráðs felld

Hafnarfjörður.
Hafnarfjörður. mbl.is

Atkvæðagreiðsla fór fram í dag á fundi bæjarráðs Hafnarfjarðarbæjar um hvort ráðið ætti að biðja listamennina Ólaf Ólafsson Libiu Castro afsökunar á því að listaverk þeirra var fjarlægt af gafli Hafnarborgar. Svo fór að tillaga um slíkt var felld. 

Ólafur og Libia standa fyrir listasýningu í Hafnarborg um þessar mundir og sýning þeirra komst í hámæli á dögunum þegar listaverk þeirra, sem á stóðu orðin „ekki kjafta ykkur frá niðurstöðum stjórnlagaþings“, var fjarlægt. Fyrir verkið og sýninguna alla fengu Ólafur og Libia Íslensku myndlistarverðlaunin fyrr á þessu ári.

Umrætt listaverk huldi merki Hafnarborgar og var fjarlægt.
Umrætt listaverk huldi merki Hafnarborgar og var fjarlægt. mbl.is

Saka bæjarstjóra um ritskoðun

Tillagan um afsökunarbeiðni kvað einnig á um að verkið yrði sett upp að nýju á gafli Hafnarborgar eigi síðar en 7. maí. Tillagan kom frá bæjarfulltrúum Samfylkingarinnar og Viðreisnar. Tillagan var felld eins og áður segir. 

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar.
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri lagði fram bókun samhliða því sem hún sagði að væri málamiðlunartillaga. Sú tillaga kvað á um að Libia og Ólafur myndu sækja um leyfi hjá byggingarfulltrúa fyrir því að listaverkið fengi að standa utan innanhúsrýmis Hafnarborgar, slíkt væri sjálfsagt að leyfi fengnu. Ekki væri um ritskoðun að ræða, sagði Rósa í bókun sinni, þegar listaverk eru fjarlægð með þeim hætti sem gert var í þessu tilfelli. 

Því eru bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar og Viðreisnar ósammála, en þeir lögðu fram eigin bókun þar sem ritskoðun er sögð einkenna vinnubrögð bæjarstjóra, enda hafi hún staðið fyrir því sjálf að verkið yrði fjarlægt. Það að tilskilin leyfi hafi vantað er ekki á rökum byggt, segja fulltrúar flokkanna tveggja, enda hafi engin gögn verið lögð fram því til stuðnings. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert