„Við erum rétt að dýfa tánni þar ofan í“

Bergur segir að helsta aðdráttarafl Íslands fyrir hjólreiðafólk sé að …
Bergur segir að helsta aðdráttarafl Íslands fyrir hjólreiðafólk sé að komast í ósnortna náttúru og fjarri umferð. Ljósmynd/Arnold Björnsson

Á hverju ári, frá vori fram á haust, fjölmenna spandexklæddir hópar frá Íslandi og norðurhluta Evrópu suður á bóginn í hlýrra loftslag við Miðjarðarhafið eða alla leið til Tenerife til að komast í fullkomnar aðstæður til að stunda götuhjólreiðar. Hér á landi könnumst við við fólk sem mætir á ferðahjólum og hjólar með allan farangurinn hringinn og stundum um minna farnar slóðir og jafnvel yfir hálendið. Sjaldnast er þó mikil þjónusta í kringum þennan hóp og liggja mikil tækifæri í fjölbreyttari hjólaferðalögum.

Áður en faraldurinn skall á hafði í nokkur ár verið byggð upp hjólaferðamennska í kringum fjallahjólaferðir með leiðsögn, enda býður hálendið upp á náttúru sem marga erlenda hjólara dreymir um að fá að upplifa. Enn er þetta þó frekar lítill hluti ferðamennsku hér og gætu bæði fjallahjólaferðir og malarhjólaferðir orðið að stórum segli fyrir áfangastaðinn Ísland og um leið góð tekjulind fyrir ferðaþjónustuna.

Bergur Benediktsson þekkir bæði fjallahjólreiðar og malarhjólreiðar vel, enda starfaði hann fyrir malarhjólafyrirtækið Lauf í fjölmörg ár þar sem hann fór meðal annars á fjölmargar keppnir erlendis og kynntist þar því grasrótarstarfi sem er í gangi, ekki síst í Bandaríkjunum, og uppgangi greinarinnar. Þá hefur hann ferðast vítt og breitt um Ísland bæði á malarhjóli og fjallahjóli og verið viðloðandi þær greinar í árafjöld. Þá hefur hann einnig farið rúmlega 550 km yfir óbyggðir Alaska um vetur á breiðhjóli (e. fat bike).

Gamlir malarslóðar í raun gullkista

„Fjallahjólahlutanum er búið að sinna ágætlega síðustu ár í leiðsögn, en ásóknin mun aðeins aukast miðað við hvernig áhuginn á fjallahjólreiðum er að aukast alls staðar í heiminum og Ísland er líka alltaf að verða vinælla sem ævintýraáfangastaður,“ segir Bergur. „„Gravel“ er hins vegar óplægður akur í þessu. Við erum rétt að dýfa tánni þar ofan í,“ bætir hann við.

Spurður nánar út í möguleikana þar segir hann að á Íslandi sé í raun einskonar gullkista í formi malarslóða vítt og breitt um landið, bæði á hálendinu sem og víðar. Þá segir hann mikla möguleika í boði varðandi að tengja þessa tegund ferðamennsku við þann fjölda fjallaskála sem séu uppi á hálendi, annaðhvort með því að vera með lengri ferðir sem komi við í nokkrum skálum eða að vera með einn skála sem bækistöð og taka 2-3 dagleiðir út frá henni.

Skipulagðar fjallahjólaferðir hafa verið í vexti hér undanfarin ár, en …
Skipulagðar fjallahjólaferðir hafa verið í vexti hér undanfarin ár, en Bergur segir að áhuginn muni nú einungis aukast. Ljósmynd/Antoine Daures

Risastór markaður

„Þetta er markaður upp á hundruð þúsunda bæði í Bandaríkjunum og Evrópu,“ segir Bergur um malarhjólreiðarnar, en þær hafa sprungið virkilega út á undanförnum árum og mæta jafnvel nokkur þúsund í vinsælustu keppnirnar í Bandaríkjunum ár hvert. „Þetta er bara að fara að aukast,“ segir hann og bætir við að Ísland hafi einnig með sér að vera mjög heitur áfangastaður.

Fyrsta stóra malarkeppnin hér á landi var Rift sem Lauf stóð fyrir árið 2019. Í fyrra var keppninni frestað út af faraldrinum, en þá var búist við 500 keppendum, flestum frá útlöndum. Bergur segir að með slíka keppni ætti að vera mjög raunhæft að fara upp í 1.500 keppendur á nokkrum árum og helgast hámarksfjöldinn helst af þeim innviðum sem eru á Suðurlandi til að taka við fjöldanum, en keppnin byrjaði á Hvolsvelli.

Vestfirðir sem sérstakur malarhjólaáfangastaður

Fjallabakið, bæði nyrðra og syðra, er að sögn Bergs alveg frábært í malarhjólamennsku. Bæði séu þar góðir vegir og stígar, en einnig sé landslagið einstakt. Hins vegar séu mun fleiri flottir staðir og nefnir hann sérstaklega Vestfirðina og eftir nokkrar vangaveltur í spjalli við blaðamann segir hann að landshlutinn ætti klárlega að skoða malarferðamarkaðinn betur og hvort tækifæri væru þar til að marka sér sérstöðu sem einskonar malarhjólaáfangastaður. Bendir hann á að á Austurlandi hafi verið gert mikið með gönguleiðir t.d. á Víknaslóðum sem og nokkrar fjallahjólaleiðir fyrir vana hjólara. „En Vestfirðir ættu klárlega að skoða malarmarkaðinn betur,“ segir Bergur. Þannig nefnir hann sérstaklega leiðina frá Flókalundi, yfir Dynjandisheiði og Hrafnseyrarheiði á Þingeyri, en margar aðrar fallegar leiðir eru á svæðinu, svo sem frá Patreksfirði að Látrabjargi og niður á Rauðasand og jafnvel Vesturgatan, þó sú leið væri líklega frekar fyrir fjallahjól og gæti kallað á nokkuð rólega ferð á malarhjóli.

Finna má mikinn fjölda malarvega og malarstíga víðast hvar um …
Finna má mikinn fjölda malarvega og malarstíga víðast hvar um landið. Bergur segir Fjallabak meðal annars einstakt, en að Vestfirðir eigi mikla möguleika á þessum markaði. Ljósmynd/Arnold Björnsson

Bergur nefnir fjölda annarra svæða sem bjóða upp á góða möguleika fyrir ferðamennsku af þessu tagi, meðal annars víða í kringum Mývatn, Skaga, Kjalveg og Sprengisand og leiðir þar út frá og allt umhverfis Langjökul.

Varðandi fjallahjólaleiðsögn og lengri ferðir hafa þær notið nokkurra vinsælda á suðvesturhorninu og Suðurlandi. Bergur segir að áfram verði miklir möguleikar þar á ferð með vaxandi vinsældum greinarinnar á alþjóðavísu og ekki síst þegar rafmagnshjólin opni á þennan möguleika fyrir stærri hóp ferðamanna.

Fyrst og fremst ósnortin náttúra fjarri umferð

En hvað er það sem fólk sækir fyrst og fremst í þegar það kemur til Íslands til að hjóla annaðhvort á fjallahjóli eða malarhjóli? „Það er fyrst og fremst að komast út í ósnortna náttúru og fjarri umferðinni. Það er minna af bílum á malarvegum og ákveðin hugarró miðað við götuhjólreiðarnar,“ segir Bergur. Hann bendir á að fjallahjólreiðarnar krefjist oft meiri tækni og fyrir tíma rafhjólanna krafðist það þess að hjóla líka mikið upp í móti eða jafnvel að bera hjólin. Við bætist svo adrenalínið á leiðinni niður. Malarhjólreiðarnar séu hins vegar gullni meðalvegurinn á milli götu- og fjallahjólreiða þar sem tæknin sé ekki jafn mikilvæg eða snerpan í götuhjólreiðum.

Grein­in birt­ist fyrst í Hjóla­blaði Morg­un­blaðsins 30. apríl.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert