53,7 milljónum króna hefur verið úthlutað til verkefna sem eiga að bæta aðgengi fólks með fötlun, aldraðra og annarra með skerta hreyfigetu að ferðamannastöðum. Einnig hljóta nokkur önnur verkefni styrk og er heildarúthlutunin fyrir verkefnin 122 milljónir króna. Þetta kemur fram í tilkynningu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra hefur ákveðið að veita viðbótarstyrki úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða, meðal annars til verkefna tengdum bættu aðgengi á ferðamannastöðum með áherslu á aðgengi fólks með skerta hreyfigetu og vegna eldgossins í Geldingadölum. Viðbótarúthlutun ráðherra að þessu sinni má rekja til fjármagns sem safnast hefur upp vegna niðurfelldra og ónýttra styrkja sjóðsins, alls um 200 milljónir króna.
„Við leggjum sérstaka áherslu á aðgengismálin að þessu sinni og ég þakka bæði Sjálfsbjörg og Öryrkjabandalaginu fyrir þeirra framlag við mótun tillagnanna. Það er von mín að þessi áhersla nú skili sér í aukinni meðvitund fyrir mikilvægi þess að hugað sé að aðgengismálum í öllum verkefnum,“ segir Þórdís Kolbrún um styrkveitinguna.
Grindavíkurbæ var einnig úthlutað tíu milljónum króna fyrir aðgerðir vegna eldgossins í Geldingadölum. Verkefnið felst í stikun gönguleiðar til að greiða aðgengi fólks að eldgosinu í Geldingadölum, bæta aðstöðu og salerni á staðnum, gerð bílastæðis nærri gönguleið, skiltagerð og merkingar og lagfæringar á slóðum fyrir viðbragðsaðila.