Afkoma ársins 2020 af rekstri utanríkisráðuneytisins er jákvæð sem nemur tæpum 1,2 milljörðum kr. samkvæmt bráðabirgðauppgjöri, þrátt fyrir að ráðuneytið hafi staðið frammi fyrir einni stærstu áskorun síðari ára, að koma Íslendingum hvarvetna í heiminum aftur heim til Íslands vegna heimsfaraldursins.
Góða rekstrarafkomu má að miklu leyti rekja til þess að ferðakostnaður og kostnaður vegna viðburðahalds lagðist niður að mestu, en Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, segir að fleira hafi þurft til.
„Við höfum aldrei séð neitt í líkingu við það áður. Meirihluti utanríkisþjónustunnar vann við það verkefni. Við höfum samt frá fyrsta auðvitað reynt að nýta fjármagn eins vel og mögulegt er. Það hefur svo auðvitað verið mitt upplegg síðan ég byrjaði í stjórnmálum að fara vel með almannafé og það verður það áfram.
Í mínum huga fer það ekki endilega alltaf saman að auka fjárútlát og að bæta þjónustu, að mínu mati er það röng hugsun að svo sé,” segir Guðlaugur við Morgunblaðið.
Ef útgjöld síðastliðins árs eru borin saman við útgjöld ráðuneytisins eins og þau voru árið 2007 er utanríkisráðuneytið annað tveggja ráðuneyta þar sem útgjöld hafa dregist saman að raungildi frá því sem var fyrir síðasta efnahagshrun.
Guðlaugur Þór, sem gefur kost á sér á efsta sæti lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi, segist spenntur fyrir prófkjöri flokksins. Framboðsfrestur er ekki liðinn, en eins og sakir standa eru þau tvö í framboði, hann og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. Guðlaugur segist spenntur að ræða við flokksmenn í Reykjavík um þau mál sem helst brenna á grasrót flokksins.