Árangurinn byggist á fjórum til sex hornsteinum

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans þökkuðu heilbrigðisstarfsfólki fyrir þrautseigju og samvinnu í kórónuveirufaraldrinum á ársfundi Landspítalans sem fram fór í dag. 

Í ávarpi sínu sagði Svandís yfirskrift fundarins, samvinna á farsóttartímum, lýsandi fyrir þau verkefni sem spítalinn hefur staðið frammi fyrir síðasta árið. Starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar hafi sýnt ótrúlega færni í samvinnu og einstakar stéttir unnið saman sem ein heild. Allir hafi lagst á eitt í baráttunni við ósýnlegan óvin og starfsfólk verið heilbrigðiskerfinu til sóma. 

Þá segir Svandís að ákveðin fyrirheit liggi í loftinu. Gangur bólusetninga sé góður og að ráðist verði í tilslakanir á sóttvarnareglum á mánudag, fyrr en ráðgert var. Svandís sagði rétt að líta björtum augum til framtíðar, þó að verkefni innan heilbrigðisþjónustunnar verði áfram krefjandi. 

Rétt eins og Svandís lagði Páll í ræðu sinni áherslu á kórónuveirufaraldurinn. Á ársfundi Landspítalans á síðasta ári hafi þátttakendur verið nokkuð drjúgir með sig en þá var fyrstu bylgju faraldursins að ljúka hér á landi. Þá hafi þó enginn vitað að bylgjan yrði aðeins sú fyrsta af nokkrum. 

Síðasta haust hafi síðan skollið á alvarleg bylgja og ótti heilbrigðisstarfsfólks raungerst þegar veiran kom inn á spítalann með margvíslegum hætti. Í einu tilfelli hafi varnir brugðist og hópsmit kom upp á Landakoti með þungbærum og alvarlegum afleiðingum. 

Páll sagði að faraldurinn hafi kennt samfélaginu mikilvægi samvinnu. Hann telur að árangur Íslands í baráttunni við kórónuveiruna byggist fyrst og fremst á fjórum hornsteinum; snemmskimun, Covid-19 göngudeild Landspítalans, utanumhald um smitvarnabúnað og opinni, heiðarlegri og tímanlegri upplýsingagjöf til almennings þar sem þríeykið svokallaða hafi staðið í framlínunni. 

Páll bætti þó við að bólusetningar gætu talist fimmti hornsteininn og vísindi sá sjötti. Vísindin efla alla dáð hafi Jónas Hallgrímsson eitt sinn sagt og það hafi sannast undanfarið ár. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka