Átta mánuðir fyrir vopnuð rán í apótekum

Oxycontin er ópíóðalyf, skylt ópíumi og morfíni, og getur verið …
Oxycontin er ópíóðalyf, skylt ópíumi og morfíni, og getur verið mjög ávanabindandi. mbl.is/Valgarður Gíslason

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi karlmann í átta mánaða fangelsi í gær fyrir tvö vopnuð rán sem framin voru í apótekum á höfuðborgarsvæðinu.

Í fyrra skiptið, þann 10. mars, hafði maðurinn hótað starfsmanni apóteks með hamri og krafið hann um verkjalyfið Oxycontin. Hafði maðurinn einn pakka af lyfinu upp úr krafsinu.

Seinna ránið, þremur dögum síðar, framdi maðurinn svo með hníf í hönd, en þar hafði hann veist að starfsmanni apóteks og lagt hnífinn upp að hálsi hennar á meðan hann krafði samstarfskonu hennar um Oxycontin. Hafði hann í það skiptið tvær pakkningar af rítalíni á brott með sér, og töluvert magn Oxycontins.

Karlmaðurinn játaði brot sín skýlaust fyrir dómi, en hann hafði þrívegis sætt refsingu fyrir dómstólum síðan árið 2014, áður en dómur féll í gær. „Hafa þau brot engin áhrif til þyngingar við ákvörðun refsingar í þessu máli,“ segir þó í dómi héraðsdóms.  

Auk hinnar átta mánaða fangelsisvistar var maðurinn dæmdur til að greiða samtals rúmar 594 þúsund krónur í sakarkostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert