Verulegar breytingar hafa orðið á vinnumarkaði hérlendis á undanförnum mánuðum og misserum.
Hlutfall starfandi fólks hefur minnkað mikið, á sjöunda tug þúsunda eru núna utan vinnumarkaðarins, vinnutíminn hefur styst og fjarvinna á heimilum hefur ekki mælst meiri, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Hlutfall mannfjöldans á vinnumarkaði var 76,5% á fyrstu þremur mánuðum þessa árs og aðeins þrisvar áður frá upphafi mælinga Hagstofunnar hefur atvinnuþátttaka verið lægri en 77% en það var á fjórða ársfjórðungi 2012 og á fyrsta og fjórða fjórðungi síðasta árs.
Hagstofan birti í gær niðurstöður úr vinnumarkaðskönnun fyrir fyrsta fjórðung ársins og þar kemur m.a. fram að frá sama tímabili í fyrra hefur starfandi fólki fækkað um 4.700. Hlutfall starfandi af mannfjölda var 70,7% og hefur aldrei mælst jafn lágt á fyrsta ársfjórðungi.