Farsóttanefnd Landspítalans í samvinnu við sóttvarnalækni hefur ákveðið að stytta tímann á milli bólusetninga starfsfólks Landspítalans með AstraZeneca úr tólf vikum í átta. Þetta kom fram á vef spítalans í gær.
Verið er að bólusetja á Landspítala með bóluefni AstraZeneca í dag og hefur öllum sem fengu fyrri bólusetningu 10.-11. mars og uppfylla skilyrðin um að vera ekki kona undir 55 ára (f. 1967 og yngri) eða með áhættuþætti sem eru frábending við gjöf bóluefnisins boðin bólusetning með SMS-boðum.
„Þeir sem ekki fengu boð en vilja fá seinni bólusetninguna með þessu bóluefni þrátt fyrir frábendingar eru velkomnir í Skaftahlíð 24 frá kl. 9:00 til 11:00 á meðan bóluefnið endist. Það er ákvörðun hvers og eins en þeir sem ekki þiggja Vaxzevria verða eins og áður hefur komið fram boðaðir í eina bólusetningu með bóluefninu frá Pfizer í byrjun júní (væntanlega 1. júní),“ segir í tilkynningu á vef Landspítalans.
Vaxzevria (AstraZeneca) er skráð þannig hérlendis að hægt sé að gefa seinni skammtinn eftir 4-12 vikur. Í byrjun var ákveðið að teygja bilið milli fyrsta og annars skammts upp í 12 vikur eftir vísbendingar um betri svörun frá fyrstu rannsóknum í Bretlandi. Síðan hafa fleiri rannsóknir komið fram sem sýnt hafa góða virkni með styttra bili á milli skammta, t. d. nýleg stór rannsókn frá Bandaríkjunum þar sem liðu fjórar vikur á milli skammta.
„Mörgum úr AZ-hópnum finnst erfitt að bíða í fullar 12 vikur eftir því að verða fullbólusettir og einnig er akkur af því að hraða ferlinu fyrir Landspítala og fjölga fullbólusettu starfsfólki í klínísku umhverfi sjúklinga hraðar en upphaflega var áætlað. Það var því ákveðið í samvinnu við sóttvarnalækni að bjóða upp á endurbólusetningu eftir >8 vikur.
Ef starfsfólk óskar eftir því að fullar 12 vikur séu látnar líða á milli skammta er sjálfsagt að verða við því.
Blöndun á bóluefnum, t.d. Comirnaty (Pfizer) á eftir Vaxzevria (AstraZeneca), er notuð víða, sérstaklega þar sem þurft hefur að bólusetja hratt með því sem er til á hverjum tíma. Ýmsar rannsóknir og fræðilegar vangaveltur styðja þetta og ekkert hefur komið fram sem bendir til verri útkomu. Margar þjóðir gera þetta, t.d. bólusetja Svíar með Comirnaty (Pfizer) eftir Vaxzevria (AstraZeneca).
Þeir sem kjósa að fá Comirnaty (Pfizer) sem annan skammt, munu teljast fullbólusettir,“ segir enn fremur.