Ein sprauta af bóluefni AstraZeneca og Pfizer veitir um og yfir 86% vörn gegn kórónuveiru hjá fólki sem er 60 ára og eldra. Er þetta niðurstaða rannsóknar í Suður-Kóreu, en fréttaveita Reuters greinir frá.
Samkvæmt niðurstöðum sóttvarnastofnunar Kóreu (KDCA) veitir bóluefni Pfizer 89,7% vörn gegn kórónuveirusmiti tveimur vikum eftir sprautu. Á sama tíma veitir bóluefni AstraZeneca 86% vörn. Þýði rannsóknar telur 3,5 milljónir Suður-Kóreubúa, 60 ára og eldri, og stóð hún yfir í tvo mánuði. Alls fengu 521.133 einstaklingar fyrstu sprautu Pfizer eða AstraZeneca. Upp komu 1.237 tilfelli kórónuveiru og smituðust einungis 29 bólusettir.
„Það er nú sannað að bæði bóluefni veita mikla vörn eftir eina sprautu. Fólk mun svo fá fulla vernd samkvæmt ráðlögðu tímaplani því vörn mun aukast enn frekar við seinni sprautu,“ segir í tilkynningu sem KDCA hefur sent frá sér.
Tilkynningin kemur í kjölfar þeirrar ákvörðunar stjórnvalda að ýta undir bólusetningu almennings, en nokkuð hefur borið á vantrausti í garð bóluefna. Um 95% þeirra sem látist hafa af völdum kórónuveiru í Suður-Kóreu eru 60 ára eða eldri. Er því vonast til að bóluefnin dragi verulega úr dauðsföllum.