Landsréttur staðfesti í dag refsidóm yfir karlmanni sem veist hafði að öðrum manni og slegið hann í andlitið með þeim afleiðingum að hann tvíbrotnaði á kjálka. Var hann dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundna fangelsisvist fyrir verknaðinn.
Atvikið átti sér stað á dansleik, og áttu mennirnir í átökum þar fyrir utan eftir að honum lauk. Vitni lýsti því fyrir dómi að karlmaðurinn hefði slegið hinn í andlitið að því er virtist fyrirvaralaust.
Í málsvörn sinni bar karlmaðurinn fyrir sig að líkamsárásin hefði verið framin sem sjálfsvörn, og því ætti ekki að refsa honum fyrir verknaðinn. Heimild fyrir slíku er til staðar í hegningarlögum, en hvorki Héraðsdómur Norðurlands vestra né Landsréttur féllust á að skilyrði fyrir slíkri neyðarvörn væru til staðar.
Reglum um neyðarvörn verður „almennt ekki beitt ef tveir menn eiga hlut að átökum, standa nokkurn veginn jafnt að vígi og bera báðir ábyrgð á þeim“, segir í dómi Landsréttar.
Auk fangelsisrefsingarinnar var maðurinn svo dæmdur til að greiða fórnarlambi sínu 633 þúsund krónur og allan málskostnað.