Héraðsdómur Austurlands hefur staðfest ákvörðun sóttvarnalæknis um að synja beiðni konu um undanþágu frá reglugerð um sóttkví og einangrun, en konunni var skylt að dvelja sóttkví í sóttvarnahúsi, að hótel Hallormsstað í Múlaþingi, þar til neikvæð niðurstaða úr seinni sýnatöku lá fyrir.
Konan, sem er íslenskur ríkisborgari, krafðist þess fyrir dómi að ákvörðun sóttvarnalæknis yrði hrundið. Hún sigldi frá Seyðisfirði ásamt eiginmanni sínum um borð í Norrænu 14. apríl sl. En um vinnuferð á flutningabifreið var að ræða. Hjónin óku um Danmörku, Þýskaland og Norður-Pólland en þau gistu aðallega í flutningabifreiðinni, að því er fram kemur í úrskurðinum.
Óumdeilt er að konan dvaldi í Póllandi í yfir sólarhring, en í kjölfarið hélt hún sömu leið til baka. Gisti svo aðfararnótt 24. apríl í Herning í Danmörku áður en hún fór um borð í Norrænu í Hirtshals. Áður hafði hún farið í Covid-prufu sem gilti fyrir skipið.
Konan kom til Seyðisfjarðar með Norrænu að morgni 27. apríl. Fram kemur í lögregluskýrslu að hún hafi ekki framvísað svokölluðu PCR-vottorði við komuna til landsins
Í skýrslunni segir ennfremur frá því að sem íslenskum ríkisborgurum hafi konunni og eiginmanni hennar verið heimiluð landvist, en þá gegn því að þau færu í „sýnatöku og sóttkvíarferli í sóttvarnarhúsi þar sem þau voru að koma frá hááhættulandi.“
Samkvæmt gögnum var tekið Covid-19 sýni af konunni, en í framhaldi af því var henni gert að fara í fimm daga sóttkví í sóttvarnarhúsi á Hótel Hallormsstað í Múlaþingi, sbr. ákvæði reglugerðar um sóttkví og einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna Covid-19. Niðurstaða sýnatökunnuar lá fyrir þann 28. apríl og reyndist það neikvætt.
Konan óskaði eftir undanþágu frá dvöl í sóttvarnarhúsinu á þeim grundvelli að hún hefði verið í vinnuferð vegna vöruflutningastarfsemi. Þeirri beiðni synjaði sóttvarnalæknir. Konan óskaði síðan eftir því að ákvörðun sóttvarnalækni yrði borin undir héraðsdóm.
Héraðsdómur bendir á að í málatilbúnaði sóttvarnalæknis hafi ítarlega verið vikið að þeim brýnu almannahagsmunum sem talin eru í húfi og varða þær ráðstafanir sem gerðar hafa verið vegna útbreiðslu Covid-19.
Héraðsdómur hafnaði því öllum röksemdum konunnar á þeim grunni að það lægi fyrir skýr heimild til þeirra ráðstafana sem gripið hafi verið til. Að áliti dómsins séu engin efin til annars en að staðfesta ákvörðun sóttvarnalæknis.