Ekki er nóg með að veðrið leiki við þá tugi þúsunda sem mæta léttklæddir í Laugardalshöll þessa dagana til að fá bólusetningu heldur er þjóðhátíðarstemningin kórónuð með ljúfum tónum.
Í gær var það plötusnúðurinn Daddi diskó sem var önnum kafinn við að skapa réttu bólusetningarstemninguna.
Morgunblaðið ræddi við Þórð Vilberg Oddsson, fæddan 1966, sem fékk bóluefni AstraZeneca í gær og sagði hann að lag Eltons Johns, Don't Go Breaking My Heart, hefði fengið að hljóma á meðan hann var bólusettur.
Hjúkrunarfræðingurinn sem bólusetti Þórð sagði honum að slaka á áður en hann fengi sprautuna, sem hann segir að hafi reynst erfitt, enda mikill Elton-aðdáandi, að því er fram kemur Morgunblaðinu í dag.
Ragnheiðar Óskar Erlendsdóttur, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins segir daginnhafa verið risadag og að virkilega góður andi hefði verið í Laugardalshöllinni.
Ragnheiður segir bólusetninguna í gær hafa gengið ótrúlega vel. Það hafi verið mikið stuð og stemning í höllinni.
„Mér fannst þetta næstum því eins og maður væri bara á Þjóðhátíð,“ sagði Ragnheiður og bætti við:
„Langt náttúrlega síðan allir hafa hist og aldrei neitt djamm í gangi þannig að það var alveg svona djammfílingur.“