Risastórt alþjóðlegt rafíþróttamót hófst í Laugardalshöll í gær. Mótið nefnist Mid-Season Invitational (MSI) og er hluti af keppninni „League of Legends“.
Er mótið haldið af tölvuleikjafyrirtækinu Riot Games og talið að milljónir manna muni fylgjast með útsendingum frá því á degi hverjum fram til 23. maí.
Um 400 manns eru mættir til landsins til þess að keppa á mótinu eða koma að framkvæmd þess.
Ólafur Hrafn Steinarsson, formaður Rafíþróttasamtaka Íslands, lýsir mótinu sem stærsta viðburði sem fram hafi farið á Íslandi.
„Ég hef heyrt því fleygt að ef við ætluðum standa fyrir svona útsendingu þyrftum við bæði að loka RÚV og Stöð 2 þar sem nota þyrfti allan útsendingar- og tækjabúnað þaðan. Þá væri eftir að kaupa slatta af búnaði,“ segir Ólafur Hrafn í umfjöllun um þennan viðburð í Morgunblaðinu í dag.