Samkomutakmarkanir upp í 50 á mánudaginn

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ráðist verður í nokkrar afléttingar á sóttvarnareglum á mánudaginn og munu þá samkomutakmarkanir miða við hámark 50 manns í stað 20 sem nú er. Þetta kom fram í máli Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra eftir ríkisstjórnarfund nú í dag.

Miðað verður við 75% af leyfilegum hámarksfjölda í sundlaugum og líkamsræktarstöðvum. Veitingastaðir og krár fá að hafa opið klukkustund lengur en áður. Það þýðir að enginn má fara inn eftir klukkan 10 og síðasti gestur þarf að fara út klukkan 11.

Þá verður einnig hámarksfjölda gesta á sviðslistum fjölgað og í verslunum verður miðað við að allt að 200 manns megi vera í sama sóttvarnahólfi.

Svandís sagði að nýja reglugerðin tæki gildi á mánudaginn og gilda í 16 daga, eða til miðvikudags tveimur vikum síðar.

Reyna að létta undir skimunum á landamærum

Í fréttum hefur verið greint frá því að mögulega geti myndast flöskuháls á landamærum Íslands vegna þess fjölda ferðamanna sem væntanlegur er til landsins á næstunni. Þá hefur verið fullyrt að starfsmenn Landspítalans nái ekki að anna þessari eftirspurn. 

Svandís sagði eftir fundinn að margt væri til ráða, til dæmis að reyna að fjölga starfsfólki á þessum vöktum og með því að hætta að skima ferðamenn sem eru með bólusetningarvottorð og hafa verið skimaðir einu sinni áður fyrir komuna til landsins. 

Þá sagði hún jafnframt að flestir ferðamenn sem hingað eru væntanlegir séu bólusettir gegn kórónuveirunni og því ætti að vera vel hægt að létta undir með heilbrigðisstarfsfólki sem sér um skimanir á landamærum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert