Karítas Ríkharðsdóttir
Mikið er um að stúlkur eða konur sem beittar hafa verið stafrænu kynferðisofbeldi taki vald á dreifingu mynda af sér með því að selja aðgang að þeim að sögn Steinunnar Gyðu- og Guðjónsdóttur, talskonu Stígamóta.
Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á fylgni þess að konur sem verða fyrir kynferðisofbeldi leiðist út í kynlífsvinnu. Steinunn hefur áhyggjur af þróun þar sem ungar konur verða í auknum mæli fyrir stafrænu kynferðisofbeldi, freisti þess að taka valið til baka með því að stíga inn í klámiðnaðinn og komi enn brotnari út að lokum.
„Við vitum að stafrænt [kynferðis]ofbeldi er að aukast. Og ef það er þarna sem er verið að brjóta niður stelpur á meðan þær eru ungar. Sextán, sautján, átján, nítján ára. Og þær eru síðan að taka þetta til baka einhverveginn þegar þær eru orðnar eldri, með því að stíga inn í klámiðnaðinn, og finna kraftinn þar. Ég er bara svo hrædd um að það endi með því að þær komi ennþá brotnari út að lokum,“ segir Steinunn við Karítas Ríkharðsdóttur í Dagmálaþætti dagsins.
Þar er rætt við Steinunni og Birnu Magnúsdóttur Gústafsson, kynfræðing um kynlífsvinnu á Íslandi og erlendis og umhverfi, umfang og afleiðingar þess.
Hér að ofan má sjá brot úr viðtalinu en Dagmál eru aðgengileg áskrifendum Morgunblaðsins hér. Einnig er hægt að kaupa vikupassa hér.