Karítas Ríkharðsdóttir
„Það eru gífurlega margir farþegar væntanlegir um helgina, sýnist okkur,“ segir Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður sóttvarnahúsa á vegum Rauða krossins. Hann segir að í dag þurfi að fara yfir hvernig landið liggi fyrir næstu daga sem eru fram undan.
„Við eigum töluvert af herbergjum lausum en það er auðvitað fljótt að fara. Von er á nokkrum flugum á morgun og með þeim töluverður fjöldi farþega. Þetta stefnir í methelgi í komu af farþegum, þá erum við að lenda í smá vandræðum,“ segir Gylfi Þór.
Að sögn Gylfa eru það ekki aðeins farþegar frá dökkrauðum löndum, samkvæmt skilgreiningu stjórnvalda, sem er gert að dvelja í sóttvarnahúsi á milli skimana, heldur er öðrum komufarþegum frjálst að þiggja dvöl í sóttvarnahúsi endurgjaldslaust. „Það er sá hópur sem að við erum kannski í mestum vandræðum að hýsa. Við verðum að láta þessi dökkrauðu lönd ganga fyrir.“
Hann segir að eins og staðan er núna þurfi ekki að vísa neinum frá en plássið er ekki ótakmarkað. Fjöldi starfsmanna er ekki heldur ótakmarkaður svo skoða þarf í dag hvað hægt sé að gera í stöðunni.
Gylfi Þór segir óvissuna um hversu margir ákveða að eigin frumkvæði að dvelja í sóttvarnahúsi valda flækjustigi, sem og að von sé á metfjölda um helgina. „Þetta verður flókið reikningsdæmi. En það er allt hægt, hið ómögulega tekur bara aðeins lengri tíma,“ segir Gylfi Þór.