Í kjölfar annarrar #metoo-bylgju hefur umræðan um kynfræðslu í skólum fengið byr undir báða vængi á ný. Kallað hefur verið eftir breytingum á núverandi fyrirkomulagi lengi, en sumir telja að fræðslan byrji of seint og sé ekki nógu yfirgripsmikil.
Í desember skipaði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, starfshóp sem hefur það markmið að efla kynfræðslu í grunn- og framhaldsskólum, og er honum stýrt af Sólborgu Guðbrandsdóttur fyrirlesara.
Hópurinn á að greina með hvaða hætti unnt er að koma á markvissari kennslu um kynheilbrigði og kynhegðun og skila til ráðherra tillögu að framkvæmd kennslu í kynfræðslu og ofbeldisforvörnum.
Gert er ráð fyrir að hópurinn skili niðurstöðum sínum til Lilju í lok mánaðarins.
„Ég held að hún muni styrkjast,“ segir Lilja aðspurð í dag um þau áhrif sem hún telur niðurstöður hópsins hafa á kynfræðslu í skólum landsins.
„Við settum hópinn á laggirnar meðal annars til að mæta þeirri staðreynd að endurskoðunar er þörf á nálgun okkar á kynfræðslu.“
Nemendur hafi kallað eftir þeirri endurskoðun á fundum með ráðherra, og því sé mikilvægt að á þá sé hlustað.
„Svo fékk ég mjög góða áskorun frá starfshópnum um að það þyrfti að stíga fastar til jarðar hvað þetta varðar,“ segir Lilja.
Margir telji kynfræðslu hafa staðið í stað svo árum skiptir, og tími sé kominn til breytinga.
„Okkur finnst brýnt að vera í takt við tímann.“
Lilja segir vinnu starfshópsins miða vel, og að von sé á niðurstöðum á næstunni.
Þá hafi ný #metoo-bylgja vitaskuld áhrif á þessi mál.
„Öll umræðan sem nú er í samfélaginu hvetur okkur til góðra verka og að tala um þessi mál á opinskáan hátt.“