Þrír karlmenn voru í gær dæmdir í Héraðsdómi Reykjaness, einn fyrir manndráp af gáleysi og hinir tveir fyrir hlutdeild í manndrápi af gáleysi. Maður lést eftir að hafa klemmst í frauðplastspressuvél, öryggisstilling hverrar hafði verið óvirkjuð, í Plastgerð Suðurnesja árið 2017.
Þannig er sá sem hlaut þyngsta dóminn sakfelldur fyrir að hafa óvirkjað öryggisstillinguna og þannig orðið valdur að dauða mannsins, yfirmaður hans sakfelldur fyrir að hafa skipað honum að óvirkja öryggisstillinguna og þannig átt hlutdeild í dauða hans og loks eiganda Plastgerðarinnar fyrir hlutdeild í manndrápi af gáleysi og brot gegn lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.
Sá sem hlaut þyngsta dóminn hlaut 60 daga skilorðsbundinn dóm en hinir tveir hlutu 30 daga skilorðsbundinn dóm.
Samanlagt voru þremenningarnir dæmdir til að greiða rúmar 5,5 milljónir í máls- og sakarkostnað.