„Það hefur verið meira og minna uppselt hér síðan við opnuðum og helgin fram undan er uppseld,“ segir Dagný Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Sky Lagoon sem opnað var á Kársnesi í Kópavogi fyrir viku.
Gestir hafa verið ánægðir með heimsóknir sínar í baðlónið að sögn Dagnýjar. „Við erum í skýjunum með viðtökurnar. Við erum líka þakklát fyrir veðrið en það hefur leikið við gestina.“
Dagný segir að þótt aðsókn hafi verið framar vonum sé lónið ekki enn komið í fullan rekstur. Bæði gildi samkomutakmarkanir þar á bæ eins og á öðrum baðstöðum og sundlaugum en eins hafi verið ákveðið að fara rólega af stað. „Við vildum byrja rólega fyrstu tvo mánuðina meðan við erum að læra á kerfin og þjálfa starfsfólk.“
Hún kveðst þó þegar hafa tekið á móti fjölda erlendra ferðamanna. „Já, það hefur verið nokkuð um þá. Þeir koma hingað bólusettir og tilbúnir að njóta með okkur.“ hdm@mbl.is