Vinstri græn vilja leiða næstu ríkisstjórn

Katrín Jakobsdóttir hélt opnunarræðu á landsfundi Vinstri grænna í dag.
Katrín Jakobsdóttir hélt opnunarræðu á landsfundi Vinstri grænna í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Góður árangur stjórnarsamstarfsins, áframhaldandi barátta fyrir jafnrétti kynjanna og lögfesting auðlindaákvæðis í stjórnarskrá er meðal þess sem Katrín Jakobsdóttir lagði áherslu í opnunarræðu sinni á landsfundi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í dag.

Í ályktun landsfundarins segir að VG leggi áherslu á að hreyfingin leiði næstu ríkisstjórn að loknum kosningum í haust. Þar er því haldið fram að málefnalegur árangur Vinstri grænna af stjórnarsamstarfinu hafi verið óumdeildur.

VG óhrædd við að endurskoða hugmyndir sínar

Landsfundinum var skipt upp í tvo hluta í ár. Fyrri hluti hans er haldinn með rafrænum hætti í dag og á morgun, en sá seinni þegar nær dregur kosningum í haust.

Í ræðu sinni sagði Katrín að Vinstri græn hefðu í gegnum tíðina verið óhræddir við að endurskoða hugmyndir sínar og að leggja fram róttæka stefnu sem oft hefur orðið að meginstraumspólitík síðar meir.

„Við höfum stundum haft óvinsælar skoðanir og tekið óvinsælar ákvarðanir þegar okkur hefur þótt þær réttar ákvarðanir,“ sagði forsætisráðherra.

„Núverandi stjórnarsamstarf var t.a.m. óvinsælt af mörgum sem ákváðu fyrir fram að við fengjum engu ráðið og myndum engu koma í framkvæmd. En annað hefur komið á daginn.“

Hlusta þurfi á þolendur kynferðislegs ofbeldis

Þá lýsti Katrín vilja sínum á lögfestingu nýs auðlindaákvæðis í stjórnarskrá landsins. „Og best væri að Alþingi afgreiddi það fyrir kosningar.“

Katrín talaði einnig um kynjamisrétti í ræðu sinni, en kynferðisofbeldi hefur verið mikið til umræðu hér á landi síðustu daga.

„Enn er kynbundið og kynferðislegt ofbeldi og áreitni meinsemd í samfélaginu eins og sést á öllum þeim þolendum sem enn og aftur stíga fram af hugrekki og lýsa ofbeldi og áreitni. Það er mikilvægt að við sem samfélag hlustum á þolendur ofbeldis sem hafa rofið þögnina um þessi mál,“ sagði hún.

Ávarpaði fundargesti á myndbandsupptöku

Eftir að máli Katrínar lauk birtist Nicola Sturgeon, æðsti ráðherra Skot­lands, á myndbandi. Þar lýsti Sturgeon því yfir að næði hún endurkjöri væri hún staðráðin í að viðhalda vináttu Íslands og Skotlands, en þingkosningar voru haldnar þar í landi í gær.

Hún lagði einnig áherslu á vináttu hennar og Katrínar, og minntist á sameiginlega ást þeirra ráðherranna á íslenskum og skoskum glæpasögum.

Loftslagsmál voru Sturgeon ofarlega í huga í ræðu sinni, auk velferðarkerfisins sem Ísland og Skotland hafa byggt upp. Sagði hún að núna væri í raun „síðasta tækifæri til að takast á við loftslagsneyðina“ sem blasir við heiminum.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Íslands ásamt Nicolu Sturgeon, æðsta ráðherra Skotlands. …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Íslands ásamt Nicolu Sturgeon, æðsta ráðherra Skotlands. Sturgeon bíður nú niðurstöðu þingkosninga í Skotlandi, en þær eiga að liggja fyrir í kvöld. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert