Reynir Freyr Pétursson, þyrluflugmaður hjá þyrluþjónustunni Helo, náði mynd af nýrri virkni í fyrsta gígnum í Geldingadölum í morgun en hann var þar á ferð með útlendinga. Hann segir að mikil breyting hafi orðið á eldgosinu frá því í gær og nánast enginn strókur komi lengur upp úr þeim gíg sem hefur verið sá eini sem hefur gosið að undanförnu.
Hann segir að hálfgerð tilviljun hafi ráðið því að hann var við gosstöðvarnar í morgun því ekki hafi staðið til að fljúga þar yfir. Reynir segir í samtali við mbl.is að hann hafi strax séð að gosið var allt öðruvísi í dag en það var í gær og dagana þar á undan en hann var við gosstöðvarnar lungann úr gærdeginum.
„Ég sá strax og ég kom að það var einhver annar taktur í gosinu,“ segir Reynir. Gígurinn stóri, sem er búinn að taka hlé og skjóta síðan upp stórum strókum, var bæði hættur að taka hlé og eins hættur að skjóta upp stórum strókum segir bætir Reynir við. Jafnframt virtist honum sem hraunrennslið hefði aukist og væri orðið jafnara og meira.
Þegar hann var að fara í loftið frá gosstöðvunum tekur hann eftir því að það rýkur úr gamla gígnum og þegar hann flýgur yfir sér hann að það er farið að leka hraun úr honum.
Myndirnar sem fylgja fréttinni sýna tvö sjónarhorn og á þeim báðum sést lítill hraunstraumur frá gamla gígnum en myndirnar eru teknar í tvö þúsund feta hæð yfir sjó klukkan 10:20.
Að sögn Reynis sá annar þyrluflugmaður þegar stóri strókurinn kom úr hinum gígnum og taldi sá flugmaður að strókurinn hefði ekki verið undir 300 metrum. Eftir það hafi gígurinn varla bært á sér.