Fallegir með slímfætur

Hanna Rósa, míkrósteingervingafræðingur, hefur notið sín vel á Svalbarða en …
Hanna Rósa, míkrósteingervingafræðingur, hefur notið sín vel á Svalbarða en hyggst nú flytja til Noregs til að vinna fyrir olíuiðnaðinn. Ljósmynd/Aðsend

Vestfirðingurinn Hanna Rósa Hjálmarsdóttir fann sína fjöl í steingervingum og því minni og eldri sem þeir eru, því betra! Hún hefur sérhæft sig í svokölluðum götungum, sem eru örsmáir steingervingar sem aðeins sjást í gegnum smásjá. Námið og starfið hefur leitt hana víða; til Noregs, til Bretlands þar sem hún vann á breskum olíuborpöllum, og til Svalbarða, þar sem öfgarnar eru miklar; annaðhvort er kolniðamyrkur svo mánuðum skiptir eða albjart. Þar fer hitastigið niður í mínus 25 á veturna og mest upp í tíu gráður á góðum sumardegi.

En á Svalbarða kann Hanna ljómandi vel við sig, þó nú sé þessum kafla senn að ljúka. Eftir sex ára dvöl flytur hún ásamt norska kærastanum til Molde í Noregi. En áður en hún flytur nær blaðamaður tali af henni í gegnum myndsímtal og fær að heyra af ævintýrum hennar á hjara veraldar.

Lærði að skjóta af riffli

Til Oslóar hélt Hanna eftir B.Sc.-nám í jarðfræði og fór þar í meistaranám í jarðlaga- og steingervingafræði.

„Ég flutti þangað árið 2010 og hef ekki flutt aftur heim síðan. Það var rosalega gaman í náminu, en ég fékk að vinna inni á jarðfræðisafninu í Osló innan um risaeðlur. Þarna byrjaði ég á meistaraverkefni um götunga frá Svalbarða. Ég var þar í hópi sem gróf upp risaeðlur sem lifðu í sjónum, eða sæskrímsli eins og það var kallað í fréttum,“ segir hún og hlær.

„Og sýnin mín eru úr þeim lögum líka,“ segir hún og segist hafa fengið sýnin send frá Svalbarða til Oslóar þar sem hún rannsakaði þau.

„En ég hafði farið sem skiptinemi til Svalbarða þegar ég var á síðasta árinu í B.Sc.-náminu hér heima, með nokkrum öðrum íslenskum stelpum.“

Kunnir þú strax vel við þig á Svalbarða?

„Já, þetta er mjög spes staður. Þetta er svolítið líkt Ísafirði með þessum háu fjöllum, þannig að mér leið eins og heima. Strax þegar maður kemur fer maður á öryggisnámskeið og lærir að skjóta af riffli, bjarga sér úr jökulsprungum og að hoppa í hafið þegar það er ís í sjónum. Mjög öfgafullt!“ segir Hanna og segir mjög fáa búa á Svalbarða og afar fáir eru þar innfæddir.

„Flestir sem búa hér hafa flutt hingað af því þeir vilja búa hér. Það skapar ákveðna stemmningu hér sem ekki er hægt að útskýra.“

Nú búa einungis um 2.000 manns þarna, þekkir þú alla?

„Nei! En það er bara ein búð hérna og maður hittir alltaf einhvern þar sem maður þekkir.“

Á olíuborpöllum 

Eftir meistaraprófið fékk Hanna vinnu á olíuborpalli.

„Ég var að klára meistaraprófið og fór að sækja um vinnu og var ráðin til ráðgjafarfyrirtækis fyrir olíuiðnaðinn í Englandi. Ég flutti því þangað og fór að vinna bæði á skrifstofunni og á olíuborpalli. Ég flakkaði á milli, en var aldrei lengur en mánuð í einu á borpallinum,“ segir Hanna og segist bæði hafa farið á borpalla við England og við Noreg.

„Það eru fleiri konur að vinna á olíuborpöllum í Noregi; þeir eru komnir lengra í þeim málum. En það var mjög notalegt að vinna fyrir Englendingana, þeir eru svo kurteisir. Það er unnið á tólf tíma vöktum,“ segir Hanna sem fékk þá káetu þegar hún vann um borð, en hún vann við að greina sýni sem komu djúpt úr hafsbotninum.

„Þeir bora niður með risaborum og upp kemur jarðefni með bornum. Úr því er tekið sýni; bæði fyrir jarðfræðinginn um borð og fyrir okkur. Fyrst þarf að þvo sýnin, yfirleitt með sápu og svo eru þau þurrkuð og sett undir smásjá, en þetta eru eins og lítil sandkorn eða minna. Ég leita svo eftir steingervingum,“ segir Hanna og segir steingervingana vera af einfrumungum.

„Þegar þeir eru á lífi lifa þeir á hafsbotni eða svífa um í sjó. Þeir eru með slímfætur í allar áttir. Þeir eru ekkert rosalega spennandi en mér finnst þeir mjög fallegir,“ segir hún og hlær.

Fann ástina norður í hafi

Eftir þrjú ár í Englandi, þar sem Hanna flakkaði á milli lands og sjós, hélt hún aftur til Svalbarða í doktorsnám.

„Ég sá ekki alveg fyrir mér að búa í Englandi það sem eftir væri og svo langaði mig svo aftur til Svalbarða. Ég var með Svalbarðabakteríu. Þannig að ég sendi tölvupóst til prófessors hér og spurði hvort hann væri með verkefni fyrir mig. Og það gekk eftir; ég sótti um starfið og fékk. Ég flutti þá alla leiðina til Svalbarða árið 2015, byrjaði í doktorsverkefninu og hef búið hér nánast síðan,“ segir Hanna.

Mitt í erfiðu doktorsnámi í háskólanum á Svalbarða bankaði ástin upp á.

„Það er kannski ekki besta hugmynd í heimi að koma hingað til að finna sér mann,“ segir hún og hlær.

Hanna og Petter njóta vetraríþrótta á Svalbarða þegar ekki er …
Hanna og Petter njóta vetraríþrótta á Svalbarða þegar ekki er of dimmt. Ljósmynd/Aðsend

Engu að síður fannst sá heppni á eyju lengst norður í ballarhafi. Petter, norskur „tölvukall“, eins og hún orðar það, varð á vegi Hönnu og vinkona hennar tók sig til og sendi honum skilaboð, í hennar nafni.

„Það varð til þess að við byrjuðum að tala saman,“ segir hún og brosir.

Hið gamla lýsir því nýja

„Ég sá að það vantaði fólk með mína sérþekkingu í Noregi,“ segir hún og segist hafa unnið í Osló í tæpt ár en þá skall kórónuveirufaraldurinn á.

„Þá þornuðu öll verkefnin upp, enginn mátti ferðast og olíuverðið hrundi. Þá fór ég aftur til Svalbarða að klára doktorsverkefnið, sem ég hafði auðvitað unnið að lengi.“

Hanna varði doktorsverkefnið nú í apríl og fékk þá nafnbótina doktor.

„Ég einbeitti mér sérstaklega að götungum á heimskautasvæðum,“ segir Hanna og segir jörðina á Svalbarða vera mjög gamla.

„Hér eru svo mörg mismunandi lög og margir mismunandi aldrar, en mikið land er hér undir jöklum.“

Nú geta götungar sagt til um loftslag í fyrndinni og aldur jarðlaga. Af hverju eru þessar rannsóknir mikilvægar?

„Í jarðfræðinni og öðrum vísindagreinum er oft sagt: „Hið nýja lýsir því gamla.“ En það er líka hægt að snúa þessu við og segja að það gamla lýsi þessu nýja. Það er hægt að skoða gömul umhverfi, eins og fyrir hundrað milljón árum, og ef aðstæðurnar verða þær sömu, þá er hægt að spá um hvað gerist, til dæmis í loftslagsmálum. Við notum líka umhverfið sem er í dag til að skilja hvernig það var fyrir hundrað milljón árum. Það sem ég geri er lítill hluti af því að skilja hvernig jörðin leit út í fyrndinni, en þegar allt kemur saman skiljum við betur heildarmyndina.“

Uppgötvaði sex nýja götunga

Vinnudagur Hönnu er misjafn; annaðhvort er hún úti á vettvangi að safna sýnum eða inni á skrifstofu að vinna vísindavinnu.

Götungar frá Svalbarða frá júra- og kríttímabilinu, og eru ótrúlega …
Götungar frá Svalbarða frá júra- og kríttímabilinu, og eru ótrúlega vel varðveittir. Ljósmynd/Aðsend

„Ég hoppa stundum upp í bíl eða þyrlu og er þá með jarðfræðihamar með, sem er mjög mikilvægt verkfæri. Svo tek ég til baka með mér bút af steininum. Þá fer ég með sýnið á tilraunastofuna og losa steingervingana úr berginu með því að brjóta það niður. Oft þarf ég að sjóða sýnið og svo nota ég sápu eða sýru til að finna steingervingana sem ég skoða svo undir smásjá. Steingervingar finnast nánast í öllu bergi sem hefur verið undir sjávarmáli,“ segir Hanna.

Í doktorsnáminu fann Hanna sex nýjar tegundir götunga.

„Það var rosalega gaman, enda gerist það ekki oft,“ segir hún og útskýrir fyrir blaðamanni að í vissum aðstæðum hafi götungar varðveist fullkomlega í kalksteini.

„Hér á Svalbarða fann ég svona frábærlega varðveitta götunga. Eins og þeir hafi frosið í tíma, en oftast hafa þeir þjappast saman og eru erfiðir að greina. En þessir voru fullkomnir og þá gat ég séð öll smáatriði. Ég gat lýst sex nýjum tegundum og betrumbætt lýsingar á öðrum.“

Myrkur allan sólarhringinn

Lífið í Longyearbyen á Svalbarða vekur forvitni blaðamanns.

„Hér er heimskautalífsstíll. Ef maður fer út í búð á veturna fer maður í öll fötin sín því hér er 25-30 stiga frost og svo vindkæling. Á sumrin eru hér svona 5-6 gráður, en eitt sumarið fór hitinn upp í 16 gráður í tvo daga. Þá þustu allir út á stuttermabolum,“ segir Hanna og brosir.

„Það er ekki oft peysuveður hér.“

Hanna segir að þau lifi að mörgu leyti ósköp venjulegu lífi, þrátt fyrir kuldann og fámennið.

„Hér er mikið menningarlíf; hér er bæði djass- og blúshátíð og svo er bíó hérna. Það er fullt af veitingastöðum og börum, vegna ferðamannanna. Þeir koma hingað nánast allan ársins hring, nema helst yfir háveturinn. Frá nóvember og fram í febrúar er hér kolniðamyrkur. Algjört myrkur allan sólarhringinn. Og öfugt á sumrin, þá er sól allan sólarhringinn,“ segir Hanna og segir myrkrið yfir vetrarmánuðina ekki trufla sig.

Ísbjörn á tjaldstæði

Hefurðu séð ísbirni?

„Já, en ekki í návígi. En þeir hafa komið inn í bæinn og aðallega á sumrin. Þeir eru líka búnir að uppgötva sumarbústaði hérna hinum megin við fjörðinn. Það eru alla vega tvær kynslóðir ísbjarna sem hafa farið þangað í leit að æti,“ segir Hanna og segir að því miður hafi þeir drepið fólk, síðast í fyrrasumar.

Ísbirnir ráfa stundum inn í bæinn Longyearbyen og hafa drepið …
Ísbirnir ráfa stundum inn í bæinn Longyearbyen og hafa drepið fólk. Hanna þarf að vera með riffil með í för ef hún fer í fjallgöngu. Ljósmynd/Aðsend

„Það var einn ferðamaður drepinn í fyrra á tjaldsvæðinu. Það er oft sett upp vörn í kringum tjaldsvæði, en það var ekkert þá. Ísbjörninn var hinum megin við fjörðinn deginum áður og það var vitað af honum. Svo hefur hann bara synt yfir,“ segir hún og segir ísbjörninn hafa náð að drepa ferðamanninn þar sem hann svaf í tjaldi sínu, en fimm dauðsföll af völdum ísbjarna hafa verið á Svalbarða frá 1971.

„Það er skylda að ferðast um með riffil ef maður fer út úr bænum, eins og í fjallgöngur,“ segir Hanna og segist ekki þurfa riffil á leið út í búð. Hún viðurkennir þó að dauðsfallið í fyrra inni í miðjum bæ hafi hrist upp í henni.

„Maður verður var um sig eftir svona árás.“

Langar í venjulegt líf

Nú eru tímamót hjá Hönnu og Petter en þau hyggjast kveðja Svalbarða, pakka niður og flytja til Molde í Noregi. Þar hefur Petter fengið vinnu og Hanna hyggst setja kraft í fyrirtækið sitt. Hún sér fram á að vinna sem ráðgjafi hjá olíufyrirtækjum.

„Ég stefni á olíuiðnaðinn og þá er erfitt að búa á Svalbarða þegar maður þarf að fara að vinna á olíuborpalli. Það er spennandi að vinna á borpalli og maður er stundum að stjórna því hvort borað sé eða ekki. Það eru miklir peningar þarna í spilunum þannig að þetta er mikil ábyrgð,“ segir Hanna og segist vera búin að fá nokkur verkefni en sér fram á bjartari tíma þegar olíuverð hækkar í kjölfar endaloka veirunnar.

Það er ansi kalt á Svalbarða og þar er algjört …
Það er ansi kalt á Svalbarða og þar er algjört myrkur á veturna. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig leggst það í þig að yfirgefa Svalbarða eftir sex ár?

„Það er allt í lagi. Þetta er mjög spes samfélag, en ég á eftir að sakna þess. En venjulegt líf er eitthvað sem mig langar að prófa aftur.“

Ítarlegt viðtal er við Hönnu Rósu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert