„Fólk margfer þarna upp eftir“

Aukin virkni dregur fólk aftur á gosstöðvarnar.
Aukin virkni dregur fólk aftur á gosstöðvarnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Fólk margfer þarna upp eftir. Við heyrum það bara á fólki,“ segir Gunnar Schram, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjunum, í samtali við mbl.is um umferð fólks að gosstöðvunum í Geldingadölum þessa dagana. 

Hann segir fólk vilja fara að gosstöðvunum bæði í myrkri og í birtu og að nýja gosstrókavirknin og aukinn kraftur í einum gígnum dragi fólk aftur að gosstöðvunum. „Þetta er svo stutt frá höfuðborgarsvæðinu og bæjarfélögunum á Suðurnesjum. Þetta er bara ágætis kvöldganga.“

Gunnar segir aðstæðurnar við gosstöðvarnar gjörbreyttar frá því sem fyrst var. Með hækkandi sól og hlýnandi veðri losna viðbragðsaðilar við aukaáhættuþætti eins og hálku í bröttum brekkum eða líkur á að fólk ofkælist. 

Í gær hafi verið fremur tíðindalaut og ekkert um skráð óhöpp. Talning hjá vegamálastofu sýni að 1.100 manns hafi lagt leið sína að gosstöðvunum í Geldingadölum í gær. 

Á vef Safe-travel er hægt að nálgast helstu upplýsingar varðandi göngu að gosstöðvunum. Þar kemur fram að hæglætisveður sé þar núna, lítill vindur en fremur kalt og fólki því ráðlagt að kippa með auka úlpu eða peysu. Vegna lítils vinds er líklegt að gas safnist enn frekar upp í dældum og lægðum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert