Mikið um hávaða og ölvun

mbl.is/Eggert

Mikill erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt og mikið um hávaða- og ölvunarútköll.

Einnig voru höfð afskipti af 11 ökumönnum sem grunaðir voru um akstur undir áhrifum áfengis, fíkniefna eða hvors tveggja.

Tilkynnt var til lögreglu um líkamsárás í Vogahverfinu (hverfi 104). Gerandi farinn þegar lögregla kom á vettvang en ekki er talið að um alvarlega áverka hafi verið að ræða.

Í öðru hverfi leitaði fólk til lögreglu vegna tveggja einstaklinga sem köstuðu steinum í hús og brutu rúður. Þegar lögregla kom á vettvang voru skemmdarvargarnir farnir.

Í Árbænum kvörtuðu íbúar undan ölvuðum manni sem barði hús að utan í hverfinu. Rætt var við manninn og honum gefið tækifæri til að ganga í burtu. Stuttu síðar var hringt aftur í lögreglu þar sem maðurinn var kominn aftur. Þegar lögregla reyndi að ræða við viðkomandi hrækti hann á lögreglu. Þá var hann handtekinn og vistaður í fangaklefa.

Mikill fjöldi bifreiða var á bílastæði Elko á Grandanum í gærkvöldi með tilheyrandi hávaða. Þegar lögreglu bar að létu ökumennirnir sig hverfa einn af öðrum að því er segir í dagbók lögreglu.

Tilkynnt var til lögreglu um að bifreið hefði verið ekið í gegnum grindverk og yfir umferðareyju í miðborginni. Þegar lögregla kom á vettvang var bifreiðin horfin en ökumaður hennar stöðvaður skömmu síðar í Breiðholtinu (hverfi 109) þar sem hann hafði ekið á umferðarskilti. Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og var vistaður í fangageymslu vegna málsins.

Ekið var á barn á reiðhjóli. Barnið slasaðist lítillega og var farið með það á slysadeild. Lögregla ræddi við ökumanninn og er málið í rannsókn. 

Lögregla fékk ábendingu um ölvaðan þjóf í Breiðholtinu (hverfi 111). Hann var mjög ölvaður og óviðræðuhæfur þegar lögregla kom á vettvang. Hann var því vistaður í fangaklefa og verður þar þangað til rennur af honum og hægt er að taka af honum skýrslu.

Lögregla gerði upptæka ræktun á kannabisi í Hafnarfirðinum (hverfi 221). Sá sem er grunaður um fíkniefnaframleiðsluna var handtekinn og tekin skýrsla af honum. Hann laus að því loknu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert