Fulltrúar hestafólks annars vegar og fulltrúar fjölda annarra vegfarendahópa skrifuðu í dag undir sáttmála sem hefur það markmið að auka tillitsemi þar sem umferð hestafólks og hópanna skarast. Auk þess var kynnt fræðslumyndband sem fer í dreifingu, en þar er vakin athygli á hættum sem geta skapast kringum hesta og aðra umferð.
Kemur þetta framtak meðal annars í framhaldi af miklum umræðum sem spruttu fram fyrir um tveimur vikum eftir slys í Hafnarfirði og notkunar hestafólks og annarra vegfarenda á mismunandi stígum í nágrenni við höfuðborgarsvæðið.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, stýrði athöfn í Félagsheimili Fáks í Víðidal í dag. Í samtali við mbl.is eftir fundinn sagði hann að um væri að ræða gríðarlega mikilvægt samtal milli ólíkra aðila. „Höfum séð á síðustu árum, ekki síst á þessum árstíma, að árekstrum fjölgar, sérstaklega í þéttbýli. Sérstaklega vegna þess að allir eru að njóta útiveru einhvern veginn. Samtalið á milli þessara aðila mikilvægt.“ Samkvæmt tölum sem kynntar voru á fundinum voru skráð 160 hestaslys hjá bráðamóttöku Landspítalans í fyrra.
Sigurður segir að mikilvægt sé fyrir almenning að átta sig á að hesturinn sé lifandi vera með eigin ákvarðanir og þótt hann sé taminn og vaninn við allskonar hluti þá bregðist hann við á sinn hátt.
Guðni Halldórsson, formaður Landsambands hestamannafélaga, segir að gríðarlega mikilvægt sé að taka þetta samtal milli ólíkra hópa. „Við þurfum að bæta samskiptin ef hægt er og auka skilning á þörfum hvers annars,“ segir hann um mismunandi hópa vegfarenda og bætir við að þar hafi gætt skilningsleysis undanfarið og komið til árekstra sem ekki hafi þurft.
Hann segir að flestir árekstrarnir hafi verið við hjólreiðafólk undanfarið, en það helgist af því að það sé fjölmennasti hópurinn. Sáttmálinn og samtalið skipti máli við alla hópa að sögn Guðna, hvort sem það sé fólk á krossurum eða fjórhjólum, hundar í lausagöngu eða fólk að ganga með barnavagna. „Ég held að árekstrarnir séu ekki meiri við hjólreiðafólk, bara fleiri þar sem það er fjölmennasti hópurinn.“
Guðfinnur Hilmarsson, fulltrúi Hjólreiðasambands Íslands, segir sáttmálann mikilvægan. „Stórt skref í átt að öll dýrin í skóginum verði vinir og að allir taki tillit til allra, sérstaklega með hestana og að það sé góð tillitssemi þegar við mætumst.“ Eins og fyrr segir kom upp mikil umræða vegna notkunar hestafólks á sérmerktum göngu- og hjólastígum og vegna notkunar hjólafólks á reiðstígum nýlega. Spurður hvort sáttmálinn sé lausn við því segir Guðfinnur þetta mikilvægt skref í rétta átt. Hins vegar þurfi margt fleira að gera. „Ég tel að það þurfi líka að bæta innviðina. Það eru margir hættulegir staðir þar sem t.d. hjólreiðamenn og hestafólk er að mætast. Það þarf að fara í uppbyggingu til að minnka hættuna á slysum.“
Athygli vekur að Landssamtök hjólreiðamanna (LHM) var ekki með við undirskriftina í dag, en í kynningarefni sem hafði verið sent út kom nafn þeirra fram. Guðni segir að samtökin hafi komið að samtalinu allan tímann og að formaðurinn hafi samþykkt sáttmálann. Svo hafi eitthvað breyst. „Ég held að það sé misskilnings sem gætir þarna sem þarf að leysa,“ segir Guðni. „Þarna er um að ræða einhverja stíga út á landi sem eru skilgreindir hestastígar sem hjólreiðamenn hafa fengið að nota. Hefur aldrei staðið til að breyta því og þessi sáttmáli er sáttmáli um sátt og gagnkvæma virðingu. Þetta er ekki samningur eða samkomulag í lögformlegum skilningi. Þarna er bara samtal sem þarf að klára.“
Spurður út í fjarveru LHM segir Sigurður Ingi að hann telji það ekki skipta miklu máli. „Nei ég held ekki. Mér finnst hér vera fulltrúar helstu, mjög margra útivistarsamtaka sem máli skipta.“
Málið snýst um hvernig einn liður í sáttmálanum er orðaður, en þar segir um gangandi, hlaupandi, hjólandi, skíðandi og akandi vegfaranda að hann: „fer ekki viljandi inn á skipulagða reiðstíga og gætir fyllstu varúðar á sameiginlegum stígum og vegum.“ Deilt er um hvað séu skipulagðir reiðstígar og er sýn hópa þar mismunandi.
Guðfinnur segir spurður út í þetta að málið snúist um hvernig merkingar séu og hvernig stígar séu skilgreindir. Hann telur það þó ekki hluta af þessum sáttmála. „Það er önnur umræða hvaða stígur er réttilega merktur sem reiðstígur.“ Spurður hvort hann telji stíga almennt rétt merkta í dag segir hann „Ég held að það sé dálítið ábótavant þar, því miður.“
Félögin, samtökin og stofnanirnar sem skrifuðu undir sáttmálann eru eftirfarandi: