Flugvél á vegum rússneskra stjórnvalda tók aðflug við Keflavíkurflugvöll bæði í fyrradag og í gær en flugvélin hafði fengið heimild til aðflugsæfinga á Íslandi. Hún lenti þó ekki á vellinum.
Þetta staðfestir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, við mbl.is.
Nokkrar vélar af þessari gerð, Ilyushin Il-96-300, eru í flota stjórnvalda í Rússlandi. Flytja þær rússneska ráðamenn á milli landa í opinberum erindrekstri þeirra.
Heimildir mbl.is herma að aðflugsæfingarnar hafi verið liður í undirbúningi komu utanríkisráðherra Rússlands, Sergeis Lavrovs, til landsins.
Lavrov hefur áður lýst áhuga sínum á að mæta á ráðherrafund norðurskautsráðsins sem haldinn verður í Reykjavík 19. og 20. maí.