Senda 17 öndunarvélar til Indlands

Í ljósi alvarlegrar stöðu kórónuveirufaraldursins á Indlandi hafa þarlend stjórnvöld þegið boð íslenskra stjórnvalda um að senda 17 öndunarvélar til Indlands.  Yfir fjögur þúsund létust þar í landi vegna Covid-19 í gær og hafa aldrei verið fleiri á einum sólarhring.

Öndunarvélarnar eru gjöf frá Landspítala og verða þær fluttar, með milligöngu heilbrigðisráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins, á vegum almannavarna Evrópusambandsins sem Ísland tekur þátt í á grundvelli EES-samstarfsins. Gert er ráð fyrir að vélarnar verði sendar á næstu dögum.

Þessar öndunarvélar eru hluti af stórri gjöf sem Landspítala fékk í fyrra frá rausnarlegu velvildarfólki spítalans. Þá var algjör óvissa um þörfina hér á landi fyrir öndunarvélar, en hún var metin mikil þá og vélarnar virkilega vel þegnar. Nú er ljóst að ekki er þörf fyrir allar öndunarvélarnar sem Landspítali hlaut að gjöf og því taldi spítalinn rétt að þær nýttust fólki í neyð annars staðar. Landspítali heldur eftir þeim vélum sem talið er nauðsynlegt til að tryggja öryggi landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert