Hátt í 200 íbúar í Skagafirði voru skimaðir í dag og er verið að flytja sýnin suður. Vonast er til þess að niðurstaðan liggi fyrir í kvöld. Fjögur smit greindust í Skagafirði í gær og að sögn Stefáns Vagns Stefánssonar, yfirlögregluþjóns á Norðurlandi vestra, er upphaf þeirra rakið til höfuðborgarsvæðisins. Hann segir að ekki sé um brot á sóttkví eða einangrun að ræða.
Líkt og fram kom í máli Sigfúsar Inga Sigfússonar, sveitarstjóra í Skagafirði, tengjast smitin öll en um er að ræða fólk á sama vinnustað og fólk sem er bundið því fjölskylduböndum.
Stefán segir að skimað hafi verið á Sauðárkróki frá klukkan 11 og lauk skimun nú á öðrum tímanum. Smitrakning er í fullum gangi og hefur verið frá því í gær. Hann segir að það komi betur í ljós í kvöld eða fyrramálið hvernig landið liggur en ekki hefur verið tekin ákvörðun um framhaldið varðandi skólahald og þjónustu sveitarfélagsins. Það verði gert þegar niðurstaða skimunar liggur fyrir.
Að sögn Stefáns Vagns biðla almannavarnir til fólks að halda sig til hlés á meðan staðan er metin en vonandi liggi niðurstaða skimunarprófa dagsins fyrir í kvöld.
Alls eru fjórir í einangrun á Norðurlandi vestra og 72 í sóttkví. Flestir eru í sóttkví á Sauðárkróki og nágrenni eða 58.