Eldur varð í tækjageymslu við Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði í kvöld, með þeim afleiðingum að geymslan eyðilagðist. Mikill viðbúnaður var á svæðinu og allt tiltækt slökkvilið í nágrenninu kallað út.
Neyðarlínunni barst tilkynning um eldinn kl. 21:07, en um klukkutíma síðar hafði slökkviliði tekist að ráða niðurlögum eldsins að mestu leyti. Slökkvistarfi er nú alveg lokið á svæðinu, að því er segir í facebookfærslu brunavarna Árnessýslu.
Í samtali við sunnlenska.is lýsti Lárus Kristinn Guðmundsson, starfandi varaslökkviliðsstjóri, aðkomu slökkviliðs en eldur var í einum bílskúr á svæðinu og talsvert um reyk að hans sögn.
„Það eru fimm bílskúrshurðir hérna og það var reykur kominn í öll rýmin en hann var aðallega í miðjurýminu og síðan breiddist hann um þakið,“ sagði Lárus Kristinn Guðmundsson við sunnlenska.is, en hann stjórnaði aðgerðum á vettvangi.
Húsið sé gamalt og geymi bæði bensín og plastvörur. Því hafi mikinn reyk lagt frá því sem barst yfir hluta bæjarins. Slökkvistarf hafi þó gengið vel.
20-25 slökkviliðsmenn tóku þátt í aðgerðunum, en allt tiltækt lið brunavarna Árnessýslu var kallað út, auk tveggja hópa frá Selfossi.
Slökkvistarfi í Hveragerði er nú lokið, áfram verður vakt á staðnum í einhvern tíma.
Posted by Brunavarnir Árnessýslu on Föstudagur, 7. maí 2021