Guðni Einarsson Skúli Halldórsson
Landeigendur Hrauns og Ísólfsskála hafa mótað í grófum dráttum stefnu um aðkomu þeirra að rekstri og uppbyggingu á gossvæðinu í Geldingadölum, sem er á þeirra landi.
Þetta kemur fram í minnisblaði starfshóps sem var skipaður til að leggja fram tillögur að uppbyggingu í kringum eldgosið til lengri og skemmri tíma. Hann skilaði minnisblaði til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.
„Fyrirsjáanlegt er að áfangastaðurinn muni draga til sín verulega umferð ferðamanna á næstunni sem krefst nauðsynlegra innviða. Engir innviðir voru fyrir á svæðinu. Af þessum sökum er aðkoma margra annarra en landeigenda nauðsynleg til að bregðast við og samhæfa,“ segir m.a. í minnisblaðinu sem um er fjallað í Morgunblaðinu í dag.
Landeigendur hafa ekki í hyggju að takmarka eða koma í veg fyrir umferð gangandi ferðamanna að gossvæðinu. Unnið er að því að koma rafmagni á svæðið og styrkja fjarskiptasamband. Bílastæði verður útbúið á næstu vikum og aðgangsstýringu komið upp.