Vill aukið framlag til vísinda

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir að það fé sem renni til vísinda á Landspítala sé langtum minna en á þeim háskólasjúkrahúsum sem spítalinn vilji bera sig saman við. 

„Spítalinn veitir yfir 100 m.kr. árlega í samkeppnisstyrki úr vísindasjóði en betur má ef duga skal, umsóknum fer fækkandi sem og tilvísunum í vísindagreinar síðustu 15 árin.

Menn hafa velt fyrir sér orsökum – breytt viðhorf, breytt menning, aukið álag í þjónustu spítalans og minna svigrúm en grunnurinn er sá að menn uppskera einfaldlega eins og þeir sá. Og við erum ekki að sá nægilega – og þá á ég við í peningum. Það fjármagn sem fer til vísinda á Landspítala er langtum minna en á þeim háskólasjúkrahúsum sem við viljum bera okkur saman við – og miðað við fjármögnunina er árangurinn í raun ótrúlega góður – því árangurinn er góður. Til ráða er að auka fé og þá er að mínu mati ákveðið lágmark að miða við 3% af rekstrarfé spítalans – það eru rúmlega 1,5 milljarðar á ári og a.m.k. helmingur þess fari í samkeppnissjóði. Það er líka mikilvægt, eins og fram kom í ávarpi heilbrigðisráðherra á Vísindum á vordögum um daginn, að eyrnamerkja féð heilbrigðisvísindastarfi. Það gengur ekki að láta mikilvægt vísindastarf keppa um fjármagn við mikilvæga og áríðandi sjúklingaþjónustu, hvort tveggja þarf að tryggja með geirnegldri fjármögnun, hið minnsta 3% til vísindastarfs en við erum fjarri því enn, með tæplega 1% af rekstrarfé spítalans samanlagt til vísindastarfs en t.d. á Karolínska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi eru þegar allt er talið um 10% af rekstrarfé eyrnamerkt vísindastarfi,“ sagði Páll í erindi á ársfundi Landspítalans í gær. 

Covid-áhrif á fyrsta ársfjórðungi metin á 814 milljónir

Í marsmánuði á árinu 2020 var Landspítali settur á neyðarstig vegna Covid-19-faraldursins og hefur faraldurinn haft talsverð áhrif á fjárhag og afkomu spítalans á árinu 2020.

Draga þurfti verulega úr hefðbundinni starfsemi en á móti jókst álag á spítalann vegna Covid-19 faraldursins. Í fjáraukalögum 2020 fékk spítalinn 5.406 m.kr. fjárveitingu vegna Covid-19-kostnaðar en einnig fékk spítalinn millifærðar fjárveitingar að fjárhæð 920 m.kr. vegna Covid-19-kostnaðar.

Hluti af þessum fjárveitingunum, eða 1.300 m.kr., voru vegna aukinnar birgðasöfnunar á árinu 2020. Þessi aukning í birgðasöfnun skýrist af meiri þörf fyrir sóttvarnarbúnað og prófefnum fyrir Covid-19-rannsóknir. Þessar fjárheimildir voru færðar meðal frestaðra tekna og verða færðar á rekstur á móti notkun. Covid-19 er enn að valda kostnaði á spítalanum á árinu 2021 og hefur reiknuð áhrif fyrsta ársfjórðungs verið metin á 814 m. kr.

Á árinu 2020 var veltan um 88.339 m.kr. Tekjuhalli var á árinu þar sem gjöld voru 449 m.kr. umfram tekjur. Landspítali gerði á áætlunum sínum um rekstur ráð fyrir að 300 m.kr. kostnaði spítalans vegna gerðardóms hjúkrunarfræðinga yrði mætt með hefðbundnum launabótum á árinu 2020 enda hafði spítalinn fengið vilyrði að svo yrði gert.

Þá hafði spítalinn óskað eftir að 309 m.kr. af 390 m.kr. af fjárveitingu vegna fjárfestingarátaks í tengslum við Covid-19 yrði afgreitt sem rekstrarframlag þar sem fjárveitingunni var ráðstafað í gjaldfært viðhald. Hvorugt gekk ekki eftir. Hefðu fjárveitingar vegna Covid-19-fjárfestingarátaksins og gerðardóms hjúkrunarfræðinga skilað sér til spítalans í samræmi við það sem spítalinn gerði ráð fyrir hefði rekstrarniðurstaða spítalans verið 160 m.kr tekjuafgangur að því er segir í ársreikningum spítalans.

Eigið fé spítalans er neikvætt samtals að fjárhæð 4.762 m.kr. í lok tímabilsins. Eignir spítalans nema 20.982 m.kr., en skuldir eru samtals 25.744 m.kr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert