Bið í allt að tvo tíma á Keflavíkurflugvelli

Víðir Reynisson.
Víðir Reynisson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta hefur gengið ágætlega, fólk hefur þó þurft að bíða lengi,“ segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, um fjölda komufarþega til landsins á Keflavíkurflugvelli um helgina. 

Hann segir daginn í dag hafa verið aðeins rólegri en gærdagurinn á flugstöðinni. 

„Fólk hefur alveg þurft að bíða í tvo tíma. Svo hefur þetta líka myndað mikið álag á veirufræðideildina hjá Landspítalanum,“ segir Víðir. 

Takmarkanir líklegar í Skagafirði

Víðir segir fyrirséð að áfram verði álag á greiningu veiruprófa, þar sem mikill fjöldi prófa hafi verið tekinn í Skagafirði. „Það þarf að hafa ákveðinn forgang.“

„Mjög margir fara í sýnatöku í dag í Skagafirði. Það má búast við ákvörðunartöku í dag um staðbundnar takmarkanir þar.“

Aðgerðastjórn almannavarna mun hittast klukkan tvö og fara yfir málin í Skagafirði. Víðir segir að horft sé til sambærilegra takmarkana og hefur verið gripið til í Vestmannaeyjum, á Hvammstanga, í Bolungavík og nú síðast í Þorlákshöfn og á Flúðum. 

„Þetta gæti haft áhrif á skóla og leikskóla, það kemur betur í ljós í dag,“ segir Víðir og útskýrir að það að hægja á nærsamfélaginu sé forsenda þess að ná hratt utan um smitin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert