Kristrún Elsa Harðardóttir, lögmaður tveggja kvenna sem sakað hafa fjölmiðlamanninn Sölva Tryggvason um ofbeldi, býst við því að tekin verði skýrsla af Sölva á næstu vikum í tengslum við annað málanna.
Kristrún og skjólstæðingur hennar hafa fengið boð í skýrslutöku hjá lögreglu vegna málsins, eftir að Kristrún lagði fram beiðni þess efnis til þess að leggja fram kæru.
Fer skýrslutakan fram á næstu vikum, að því er Kristrún tjáir mbl.is.
Málið varðar konu sem kveðst hafa orðið fyrir kynferðisbroti af hálfu Sölva á heimili hans 22. júní í fyrra og kveðst loks nú hafa hugrekki til að kæra brotið til lögreglu, samkvæmt yfirlýsingu sem Kristrún sendi frá sér í síðustu viku.
Spurð hvort Sölvi verði yfirheyrður í kjölfar skýrslutöku af skjólstæðingnum segir hún:
„Lögreglan verður að svara fyrir það en það er nú yfirleitt þannig.“
Sölvi var þá einnig sakaður um líkamsárás í marsmánuði. Kristrún segir að það mál sé enn til rannsóknar hjá lögreglu en Kristrún er einnig lögmaður konunnar sem þar á í hlut.
Fleiri konur hafa ekki leitað til Kristrúnar með sambærileg mál á hendur Sölva.