Gígurinn tók við sér að nýju

mbl.is/Kristinn Magnússon

Strókavirknin er byrjuð aftur í helsta gígnum á gosstöðvunum í Geldingadölum. Virknin hófst að nýju á milli 19 og 20 í gærkvöldi en mjög rólega. Gígurinn tók síðan vel við sér í nótt og er nú svipuð virkni í honum og var fyrir hléið í gær. 

Fyrir viku varð breyting á yfirborðsvirkni eldgossins. Stöðug kvikustrókavirkni hætti og lotubundin kvikustrókavirkni tók við, en talað er um kvikustrók þegar sprenging verður þegar gas sleppur úr kvikunni. Núverandi kvikustrókavirkni er með reglulegu bili og getur þeytt kviku nokkur hundruð metra upp fyrir gíg. Sú kvika verður að ösku og kleprum sem geta fallið til jarðar nokkur hundruð metrum frá gígnum. Vegna þess var hættusvæði í kringum gosstöðvarnar stækkað.  Þessi breyting er ekki vísbending um að eldgosinu sé að ljúka.

Salóme Jór­unn Bern­h­arðsdótt­ir, nátt­úru­vár­sér­fræðing­ur á Veður­stofu Íslands, segir að þetta hafi byrjað hægt í gærkvöldi, svona eins og ljósavél sem er að komast af stað. Rétt undir miðnætti og til hálftvö var nokkuð jöfn virkni en af fullum krafti undir morgun og er nú svipað því sem var í vikunni sem leið. 

Hún segir að strókarnir séu hæstir í byrjun en síðan hægi á þeim í nokkrar mínútur og koll af kolli.

Þegar blaðamaður segir að þetta minni á goshver, bæði strókarnir og hraunelfurin, segir Salóme að það sé ein af kenningunum. Að aflið á bak við þetta sé ekki ósvipuð því sem er í goshverum. Það sem gerist í goshverum er að þrýstingsfall verður, sem þýðir að vatnið snöggsýður. Það er í raun svipað sem gerist, það verður afgösun, gasið hættir að vera uppleyst í kvikunni og verður að endingu að strókum segir Salóme.

Mælingar Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands frá því í síðustu viku sýna að hraunflæði er enn nokkuð stöðugt og framrás hrauns heldur áfram. 

Líklegt er að lotubundna hegðunin tengist breytingum í lögun og rúmtaki efsta hluta gosrásarinnar. Aðstæður nú benda til þess að hvellsuða eigi sér stað frekar grunnt undir yfirborði gígsins, en við það verður aðskilnaður á kvikugösum og kvikunni sjálfri og rúmtak hennar eykst með þeim afleiðingum að kvikustrókar myndast. Á sama tíma er uppstreymi kviku nokkuð stöðugt úr neðri hluta jarðskorpunnar. Mest af hraunrennslinu á sér stað í hraunrásum undir gígbarminum og hafa sprengingarnar ekki áhrif á það.

Gígurinn, sem fyrst gaus í Geldingardölum, hefur verið til friðs síðan í gær en sérfræðingar Veðurstofu Íslands hafa ekki frétt af honum síðan í gær þannig að ekki er vitað hvort virknin er hætt þar að nýju.

Eldfjallafræði- og náttúruvárhópur Háskóla Íslands birti í gær myndir Kristins Ingvarssonar, ljósmyndara Háskóla Íslands, frá gosstöðvunum á Reykjanesi en hann slóst í för með nokkrum af vísindamönnum skólans í rannsóknarleiðangur ásamt tökuliði þáttarins 60 Minutes plus.

Umfjöllun 60 Minutes og 60 Minutes plus um gosið á Reykjanesi verður sýnd seinni hluta maímánaðar á CBS-sjónvarpsstöðinni og vef stöðvarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert