Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hefur þurft að kalla út lið af þremur slökkvistöðvum til þess að ráða niðurlögum gróðurelds á milli Hafnarfjarðar og Garðabæjar, rétt í nágrenni við slökkviliðsstöðina við Skútahraun.
Eldurinn kviknaði í gróðri ofan í hrauni skammt frá stöðinni. Gengur erfiðlega að slökkva hann en ekki er enn vitað um upptök hans.
Reykinn leggur yfir Ásahverfið í Garðabænum. Slökkviliðsmenn eru að eiga við reykinn með tólum enn bíða þess enn að geta beitt vatni á eldinn.
Eldurinn er á um 600 til þúsund fermetra svæði að mati blaðamanns á svæðinu.
Töluverður viðbúnaður er hjá slökkviliði og lögreglu en erfitt er að eiga við brunann þar sem hann liggur í mosa og lyngi í hrauni og gjótum. Eldurinn er enn að dreifa úr sér.